Fjórða tilboði hafnað og brast í grát

Staða ungs fólks við húsnæðiskaup er erfiðust að mati fasteignasalanna. …
Staða ungs fólks við húsnæðiskaup er erfiðust að mati fasteignasalanna. Íbúðir hækka hratt í verði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það brast kona í grát hjá okkur í gær. Hún var með mjög gott tilboð í íbúð en því var hafnað og öðru tekið í staðinn. Þetta var í fjórða sinn sem hún var í þessum sporum,“ segir fasteignasali í Reykjavík spurður út í ástandið á húsnæðismarkaði. Hann segir marga í sömu stöðu, geri ítrekað tilboð en lendi alltaf í því að einhver annar bjóði aðeins betur. Sumir hafa lent í þessu 3-4 sinnum í röð.

Aðrir fasteignasalar sem mbl.is ræddi við segja svipaða sögu: Of margir slást um of fáar eignir. Og verðið hefur hækkað hratt. Hér er raunverulegt dæmi: Kona keypti tveggja herbergja íbúð í vinsælu hverfi í Reykjavík í febrúar 2014 á um 20 milljónir króna. Sléttum þremur árum síðar seldi hún íbúðina á um 30 milljónir. Hækkunin nemur 50%.

Heitur markaður og gul ljós

Greiningardeildir bankanna segja fasteignamarkaðinn „vel heitan“ um þessar mundir og að það glitti í „gul ljós“ á sumum svæðum þar sem verð hefur hækkað sérlega mikið.

Byggja þarf nokkur þúsund íbúðir á landinu næstu ári til …
Byggja þarf nokkur þúsund íbúðir á landinu næstu ári til að halda í við fólksfjölgun. mbl.is/Golli

Á síðasta ári hækkaði húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu um 15%. Er því nú spáð að næstu þrjú árin hækki það svo um 30% til viðbótar „Hagstætt efnahagsástand, fólksfjölgun, kaupmáttaraukning og gott aðgengi að fjármögnun hafa stutt við hækkanir á húsnæðisverði og munu líklega gera áfram,“ segir í nýlegri samantekt greiningardeildar Arion banka.

Ljóst er að of fáar íbúðir hafa verið byggðar síðustu misserin. Brýn þörf er á um 8.000 íbúðum á næstu þremur árum til að halda í við fólksfjölgun og „er þá ekki tekið fyllilega tillit til uppsafnaðrar þarfar.“ Að mati Arion banka er ólíklegt að sá fjöldi náist.

Með öðrum orðum: Það er ekki útlit fyrir að ástandið lagist á næstu vikum og mánuðum. Þessi óvissa, því vissulega er aðeins um spár að ræða, er fólki í húsnæðisleit erfið.

Það getur reynst erfitt að fóta sig í fasteignakaupunum, sérstaklega …
Það getur reynst erfitt að fóta sig í fasteignakaupunum, sérstaklega þegar fólk er ungt. Þá er úr minna fé að moða og eldri kaupendur hafa forskot. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fasteignasalar segja stöðu ungs fólks sem er að kaupa sína fyrstu íbúð erfiðasta. Það eigi stundum ekki möguleika í samkeppni við eldri kaupendur sem geti greitt mikið út strax. „Ég hef vissar áhyggjur af leit ungs fólks að húsnæði,“ segir fasteignasali sem verið hefur í greininni í áratugi.

Um seljendamarkað er að ræða, segja þeir. Það þýðir að seljendur eru í lykilstöðu. Verðið er hátt og þeir geta oft valið úr tilboðum.

„Viltu leyfa okkur að eiga heima hérna?“

Ung kona sem mbl.is ræddi við og var að kaupa sína fyrstu íbúð lýsti erfiðri og margra mánaða leit að íbúð sem lauk þó loks með nokkuð skemmtilegum hætti. „Þetta er allt syni mínum að þakka,“ segir konan. Fjölskyldan hafði skoðað margar íbúðir og gert fjölda tilboða en án árangurs. Alltaf voru einhverjir sem buðu betur. Á öskudag í fyrra var komið að enn einni skoðuninni og sonurinn, þá sjö ára, var uppgefinn eftir átök dagsins og sykurát.

„Svo komum við inn í þessa íbúð en sonur minn var orðinn svo þreyttur á að skoða íbúðir og fékk eiginlega alveg nóg. Hann fór því til eigandans sem var að sýna okkur íbúðina og sagði biðjandi röddu: „Það vill enginn leyfa okkur að búa neins staðar. Gerðu það, viltu leyfa okkur að eiga heima hérna?“ Ég er sannfærð um að þetta hafði áhrif. Eigandinn fékk fleiri tilboð en hafði valið okkur.“

Þessi unga kona fékk því draumaíbúðina sína. Það eru ekki allir svo heppnir.

Mikill hraði

Tugir mæta í hvert einasta „opið hús“ sem er haldið og „hressileg gusa“ af tilboðum kemur svo strax í kjölfarið, eins og einn fasteignasali orðar það. Dæmi eru um að 10-20 aðilar geri tilboð í hverja eign. Fólk þarf að hafa hraðar hendur því samkeppnin er svo mikil.

Tugir manna mæta í hvert opna húsið á fætur öðru …
Tugir manna mæta í hvert opna húsið á fætur öðru og bjóða í íbúðir. Það getur tekið á andlegu hliðina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Færri eignir en áður eru til sölu og fasteignasalarnir keppast um að fá þær á skrá. „Ég held að almennt sé það þannig að lagerinn af eignum á fasteignasölunum er með allra minnsta móti,“ segir reynslubolti í faginu.

Þær seljast líka fljótt, minni íbúðir nánast strax eða á örfáum dögum. Markaður fyrir stærri eignir, svo sem einbýlishús og raðhús, er einnig að glæðast á ný svo um munar.

Fasteignasali með margra ára reynslu segir að nú sé lag fyrir þá sem vilja stækka við sig og kaupa sérbýli. Verð þeirra hefur hækkað en þau eiga „enn mikið inni“ eins og hann orðar það. Það hafi svo auðvitað keðjuverkandi áhrif, minni íbúðir losni í staðinn.

Áhugi hefur líka aukist á eignum fyrir utan höfuðborgarsvæðið, s.s. í Vogum, Hveragerði og Grindavík. Verðhækkanirnar eru því langt í frá eingöngu bundnar við stærstu sveitarfélögin á suðvesturhorni landsins.

Fréttir af hækkun fasteignaverðs og spár um að þær eigi eftir að verða enn meiri hafa orðið til þess að einhverjir halda að sér höndum í fasteignaviðskipum. „Þessar hröðu hækkanir hægja á öllum markaðnum. Fólk þarf ráðrúm til að átta sig á breyttri stöðu,“ segir reynslumikill fasteignasali.

Skortur á byggingarlóðum

En hver er lykilskýringin á þessu ástandi sem nú hefur skapast?

Það vantar spýtur og það vantar sög, ef svo má að orði komast. Sum sé: Það þarf nauðsynlega að úthluta fleiri byggingarlóðum og byggja fleiri íbúðir eins og á undan er rakið. Áætlanir um uppbyggingu hafa hingað til ekki staðist. 

Allir þessir ferðamenn sem hingað koma þurfa að gista einhvers …
Allir þessir ferðamenn sem hingað koma þurfa að gista einhvers staðar. Og allir starfsmennirnir sem vinna í ferðageiranum þurfa að búa einhvers staðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki má svo gleyma ferðamönnunum sem taka sitt pláss á húsnæðismarkaðnum en hundruð og stundum þúsundir íbúða og herbergja eru leigðar út til þeirra á hverjum tíma.

„Ég man ekki eftir því á þeim rúmlega tveimur áratugum sem ég hef verið að selja fasteignir að það hafi verið svona mikil vöntun á íbúðarhúsnæði,“ segir einn fasteignasali.

Annar tekur þetta saman með þessum hætti: „Stór hluti þeirra ferðamanna sem hingað koma gistir ekki á hótelum eða gistihúsum heldur í íbúðarhúsnæði. Það er fullt af erlendu starfsfólki hér, m.a. í ferðaþjónustunni, og það þarf að búa einhvers staðar. Lífeyrissjóðir og leigufélög kaupa liggur mér við að segja allar blokkir sem koma á markaðinn og setja í leigu. Og verktakarnir eru að byggja hótel. Á meðan eru þeir ekki að byggja íbúðir. Þetta er staðan í hnotskurn.“

Bíða með að selja blokkina

Einn fasteignasali segist vita til þess að verktakar séu tilbúnir með heilu fjölbýlishúsin en setji íbúðirnar ekki á sölu því þeir séu að bíða eftir að verðið hækki enn frekar. „Þetta eru vel fjármagnaðir aðilar og þeim liggur ekkert á.“

Fasteignasalarnir sem mbl.is ræddi við taka undir með greiningardeildum bankanna að því leyti að þeir segja ólíklegt að fasteignaverð lækki á næstunni.  „Menn mega því passa sig á því að ætla að bíða þar til verðið lækkar. Það er ekkert að fara að gerast í bráð.“

Mbl.is mun næstu daga fjalla um hús­næðismarkaðinn, meðal annars út frá sjón­ar­hóli þeirra sem eru að leita sér að hús­næði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert