Bann ekki besta lausnin

Frá höfuðborgarsvæðinu.
Frá höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Ég er einfaldlega ekki sammála því að það eigi að banna þetta,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við þeim ummælum Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra í Kópavogi, að banna ætti Airbnb á ákveðnum svæðum á höfuðborgarsvæðinu til þess að tryggja eðlilegt framboð af íbúðum.

„Hins vegar myndi ég vilja fá miklu betri greiningu á stöðunni. Hvort þetta sé aðalvandinn,“ segir Gunnar. Verið sé að fjalla um málið á vettvangi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og fyrirhugaður sé fundur með Þorsteini Víglundssyni félagsmálaráðherra í næstu viku. Fyrst þurfi að kortleggja almennilega hvert vandamálið raunverulega sé í þessum efnum.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ.
Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ. mbl.is/Golli

„Ég held að vandamálið sé annars númer eitt, tvö og þrjú að það einfaldlega skortir að fleiri byggi,“ segir Gunnar. Það sé ekki lausn að banna einum að gera eitthvað til þess að aðrir geti það. Hann sé ekki mjög hrifnn af því.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness.
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness, segir rétt að skoða þann möguleika að banna Airbnb á ákveðnum svæðum og bendir á að Reykjavíkurborg hafi verið að þrengja að slíkri starfsemi. Ljóst sé að grípa þurfi til einhverra aðgerða á næstu 2-3 árum til þess að skapa því unga fólki sem er að reyna að kaupa sína fyrstu íbúð möguleika á því.

„Það sem Ármann er líka að benda á er að það eru engar útsvarstekjur af erlendum ferðamönnum sem kannski taka hér heilu hverfin,“ segir hún. Á sama tíma þurfi sveitarfélögin að halda úti sömu þjónustu án þess að fá neitt til baka. Ákveðin greiningarvinna þurfi að eiga sér stað og um leið þurfi að vera skýr rammi í kringum Airbnb starfsemina.

Mikill munur sé á því að fólk leigi íbúðir sínar endum og eins þegar það er ekki sjálft að nota þær og því að leigja þær kerfisbundið út.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, tekur undir þetta. Þá sé fólk komið út í atvinnustarfsemi sem allt aðrar reglur gildi um. Við þær aðstæður fari starfsemin í raun fram á fölskum forsendum.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Ég er annars þeirrar skoðunar að ef hægt er að komast hjá boðum og bönnum sé það gott. En þau geta hins vegar reynst nauðsyn ef ekki er hægt að taka á málum með öðrum hætti,“ segir Haraldur.

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segist að sama skapi almennt ekki hrifinn af boðum og bönnum og að æskilegt væri að skoða aðrar leiðir áður en gripið væri til slíks. Það væri í raun örþrifaráð. Þessi mál þyrfti hins vegar að skoða betur.

Ekki náðist í Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, við vinnslu fréttarinnar.

Haraldur Líndal Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Haraldur Líndal Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert