„Þetta er ekki hilluvara“

Helgi Þórhallsson, forstjóri United Silicon á Íslandi.
Helgi Þórhallsson, forstjóri United Silicon á Íslandi. Skjáskot af Alþingi

„Þetta er búið að vera ansi erfitt,“ sagði Helgi Þórhallsson, forstjóri United Silicon á Íslandi, á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun þar sem rætt var um mengun frá kísilmálmverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík á Reykjanesi. Helgi sagðist hafa komið að fjölda slíkra verksmiðja um allan heim en aldrei lent í eins miklum byrjunarvandræðum og hér á landi. Segja mætti í raun að nánast allt hafi gengið á afturfótunum.

Helgi sagði reykræstivirkið utan á verksmiðjunni virka sem skyldi en hins vegar væri ekki sömu sögu að segja um reykræstibúnaðinn innan veggja hennar. Hann hefði verið hannaður af íslenskri verkfræðistofu en komið hefði í ljós að hann væri of lítill og réði ekki almennilega við verkefni sitt. Unnið væri að því að skipta búnaðinum út en það gæti tekið nokkra mánuði. Um væri að ræða heilmikla fjárfestingu sem tæki tíma að útvega.

„Þetta er ekki hilluvara,“ sagði Helgi. Fyrirtækið væri komið í samstarf við norskt ráðgjafafyrirtæki í þessum efnum. Til stæði í millitíðinni að skipta oftar um poka í núverandi reykræstikerfi og halda öllum hurðum og gluggum lokuðum til þess að reykur bærist ekki út úr verksmiðjunni. Þessi reykur væri sá sem hefði sést frá henni. Hvað varðar lykt sem fundist hefði sagði Helgi að unnið væri að því að rannsaka hvaðan hún kæmi.

Rifjað var upp að tölvukerfi verksmiðjunnar hefði ekki virkað að öllu leyti sem skyldi og sagði Helgi það rétt. Kerfin væru flókin og það tæki tíma að fínstilla þau. Helgi minnti á að verksmiðjan hefði verið gangsett í nóvember en það tæki venjulega 1-2 ár að koma slíkum verksmiðjum almennilega af stað. Hins vegar væri mikilvægt að hafa í huga að öll þau mál sem komið hefðu upp væru leysanlegt. „Við teljum okkur vera á réttri leið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert