Átelja tvískinnung ráðamanna

Ómar Ragnarsson er formaður Íslandshreyfingarinnar.
Ómar Ragnarsson er formaður Íslandshreyfingarinnar. mbl.is/Rax

Stjórn Íslandshreyfingarinnar, - lifandi lands átelur þann tvískinnung sem birtist í yfirlýsingum ráðamanna í Reykjanesbæ varðandi stóriðju í Helguvík. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hreyfingin hefur sent frá sér.

„Alger mótsögn er fólgin í því að segja annars vegar að stóriðjustefnan verði aflögð í Helguvík og að ekki verði haldið lengra á þeirri braut, en upplýsa jafnframt að staðið verði við samninga við tvö önnur stóriðjufyrirtæki en United Silicon, sem samtals munu þurfa 20 sinnum meiri orku en núverandi kísilver þarf, eða alls 745 megavött.  Það er meiri orka en samsvarar Kárahnjúkavirkjun.

Til þess að útvega orku handa þessum tveimur fyrirtækjum þarf net virkjanamannvirkja um endilangan Reykjanesskaga, austur um hálendið og um Suðurland allt austur í Skaftafellssýslu.

Það er ekki nýtt að  sagt sé að ekki sé hægt að snúa við varðandi álver í Helguvík.  Það var gert 2006 og enn er hið sama sagt.

2013 lýsti nýmynduð ríkisstjórn  einróma yfir því á fyrsta starfsdegi sínun að þetta álver væri í forgangi og nú er sagt að ekki sé hægt að snúa til baka með það, sem byrjað hafi verið á.

Árið 2010  lágu fyrir yfirlýsingar Norðuráls og Alcoa um að lágmarksstærð álvera til þess að þau bæru sig, væri um 350 þúsund tonna framleiðsla á ári.

 Í ljósi þessa telur stjórn Íslandshreyfingarinnar, að fyrir löngu sé kominn tími til að hætta öllum tvískinnungi um álver í Helguvík með þeim óheyrilegu afleiðingum fyrir íslensk náttúruverðmæti, sem fylgja myndi slíku fyrirtæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert