Ofninn verið án vandræða

United Silicon í Reykjanesbæ.
United Silicon í Reykjanesbæ. Ljósmynd/United Silicon

Engin frekari vandamál hafa komið upp síðan ljós­boga­ofn kís­il­verk­smiðju United Silicon hf. í Helgu­vík var gangsettur að nýju þann 25. maí, eftir að rafskaut ofnsins hafði brotnað með þeim afleiðingum að hann stöðvaðist.

„Það gengur allt ljómandi vel, sjö, níu, þrettán“ segir Kristleifur Andrésson, stjórnandi öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon. „Síðan við fórum af stað aftur þá hefur lítið komið uppá og þetta hefur gengið bara samkvæmt áætlun.“

Síðastliðna rúma viku hefur ofninn verið keyrður á 30 megavöttum án nokkurra uppákoma að sögn Kristleifs en reiknað er með að við lok eða um miðja þessa viku verði allt komið í eðlilegan rekstur verði engar uppákomur.

Fyrstu 2-3 dagana eftir að ofninn var gangsettur kom upp bilun í glussakerfi en að sögn Kristleifs var þar um afleiðingar af brunanum sem hægt var að kippa í liðinn. Þá var rafmagnslaust í um 45 mínútur í síðustu viku þar sem að rafmagni hjá HS Veitum sló út.

„En síðan hefur bara ekkert komið upp á,“ segir Kristleifur. „Við skulum vona að þetta haldi bara svona áfram því að eins og staðan er auðvitað þá eru þetta ansi margir sem hafa aðkomu sína að þessu, að þetta gangi.“

Engar niðurstöður liggja fyrir

Rannsóknir við loftmælingar standa enn yfir á þeim átta mælistöðvum sem settar hafa verið upp til að fylgjast með loftgæðum í kjölfar ræstingarinnar og liggja engar niðurstöður fyrir ennþá. Það er norska loft­rann­sókn­ar­stofn­un­in NILU sem annast mæl­ing­arn­ar en United Silicon vinnur eft­ir úr­bóta­áætl­un norska ráðgjaf­ar­fyr­ir­tæks­isns Multikonsult.

„Þeir eru að mæla, þetta og verður alla þessa viku í það minnsta og það er á þessum átta stöðum áfram sem að þessar mælingar eru,“ segir Kristleifur. „Multiconsult er að fylgjast með öllu hjá okkur og það er bara allur viðbúnaður sem hægt er að hafa.“

Hann segir erfitt að segja til um á þessari stundu hvenær vænta megi niðurstaðna úr rannsókn loftgæða. „Þetta er náttúrlega hlutur sem að við stjórnum ekki neitt, hefur bara sinn gang hjá þessum vísindamönnum,“ segir Kristleifur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert