Verksmiðjan greiði fyrir skaðann

Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík.
Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það er sett niður verksmiðja en forsendur og lýsingin á áhrifunum eru ekki í samræmi við raunveruleikann. Þá er spurning hver eigi rétt á hreina loftinu, almenningur sem var þarna fyrir eða verksmiðjan?“ segir Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands. 

Greint hefur verið frá því að yfir 200 kvart­an­ir hefðu borist Um­hverf­is­stofn­un á þeim þrem­ur vik­um sem hafa liðið frá því að United Silicon var heim­ilað að end­ur­ræsa ofn verk­smiðjunn­ar. Íbúar í ná­grenn­inu hefðu til að mynda fundið fyr­ir ert­ingu í önd­un­ar­vegi eft­ir að ofn­inn var ræst­ur. 

Ástandið er skólabókardæmi í hagfræði: Mengun af framleiðslu í verksmiðju sem rís nálægt byggð hefur neikvæð áhrif á velferð íbúa. Við vandamálinu eru nokkrar lausnir sem eru misgóðar eftir aðstæðum. Ríkisvaldið gæti stöðvað starfsemina, sett kvóta á framleitt magn, skattlagt framleiðsluna sérstaklega eða falið hluteigendum að semja sín á milli. 

„Í mínum huga er ekki spurning að verksmiðjan ætti að borga óþægindaálagið í formi hreinsunar eða þá að greiða skaðabætur. Það er augljóst að ef þetta verður viðvarandi ástand hefur það áhrif á húsnæðisverð í kring,“ segir Þórólfur.

Spurður hvort stöðvun á rekstri sé hagkvæm niðurstaða segir hann að það geti farið eftir ýmsu. „Það er reikningsdæmi. Ef það þyrfti að kaupa upp heilt hverfi á hálfvirði og borga fullt verð fyrir þá getur verið að það borgi sig að leggja niður verksmiðjuna.“

Aðkoma stjórnvalda nauðsynleg

Ein lausn við vanda af þessu tagi var sett fram af nóbelsverðlaunahafanum Ronald Coase árið 1960. Hann sagði að þegar eignarréttur væri vel skilgreindur og þegar viðskiptakostnaður væri nægilega lágur gætu hluteigendur samið sín á milli og komist að hagkvæmri niðurstöðu.

Þegar kenningin er heimfærð á ástandið á Reykjanesskaga þyrfti United Silicon fyrirtækið að greiða íbúum upphæð sem nemur skaðanum sem þeir verða fyrir. Hins vegar er ólíklegt að forsendurnar haldi í þessu tilviki vegna þess að erfitt er að skilgreina eignarrétt á andrúmslofti  og mikill kostnaður fælist í að samhæfa íbúa til að sækja rétt sinn. 

„Í fyrsta lagi er samhæfingarvandi vegna þess að það eru svo margir sem eiga hlut í máli. Í öðru lagi kemur óvissan inn. Það þarf að blanda stjórnvöldum inn í þetta vegna þess að þau geta sagt að þú þurfir líka að greiða ef eitthvað kemur fyrir í framtíðinni. Það gildir ekki um frjálsa samninga.“

Þórólfur Matthíasson á ráðstefnu um efnahagserfiðleika Grikklands.
Þórólfur Matthíasson á ráðstefnu um efnahagserfiðleika Grikklands. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert