Tók mikið á alla hlutaðeigandi

Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar.
Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Margrét Pála Ólafsdóttir stofnandi Hjallastefnunnar er þakklát því að málinu, þar sem tveir starfsmenn barnaskóla Hjallastefnunnar voru grunaðir um að hafa beitt börn ofbeldi, sé lokið. Margrét Pála segir málið hafa tekið mikið á alla hlutaðeigandi.

Reyndi mikið á alla

„Ég er mjög þakklát að málinu sé lokið og sérstaklega er mikill léttir að vita að ekkert átti sér stað sem var ástæða til lögreglurannsóknar,“ segir Margrét Pála í samtali við mbl.is. Að sögn Margrétar Pálu reyndi þetta mikið á alla og boðið verður upp á sálfræðiviðtöl fyrir starfsfólk skólans.

„Við þurfum bara einfaldlega að heila okkur,“ segir Margrét Pála og bætir við að bæði sér og starfsfólki skólans sé létt yfir því að engin alvarleg brot virtust hafa átt sér stað. „Starfsmenn Barnaverndarnefndar Reykjavíkur eru vel starfi sínu vaxnir og þeir hefðu vísað málinu áfram hefði þótt ástæða til,“ segir Margrét Pála.

Að sögn Margrétar Pálu hefur skólinn fundið fyrir miklum stuðningi frá foreldrum barna við skólann. „Viðkomandi börn voru öll hætt í skólanum þegar málið kom upp og ekkert foreldri og enginn starfsmaður hefur gengið frá borði,“ segir Margrét Pála.

Kallar ekki á brotvikningu

„Við megum ekki gleyma því þótt að einhver hafi ekki sýnt albestu hugsanlegu viðbrögð í einhverjum aðstæðum að slíkt getur gerst, og hefur mögulega gerst víða,“ segir Margrét Pála. Ljóst er að annar starfsmannana tveggja, sem tilkynntir voru, snýr ekki aftur til vinnu í haust en Margrét Pála segir það hafa verið sameiginlega niðurstöðu skólans og starfsmannsins.

Margrét Pála segir niðurstöðu barnaverndarnefndar ekki vera þess eðlis að hún kalli á brotvikningu eða uppsagnir. „Við verðum að gæta okkar að fara ekki offari yfir málum sem reynast léttvægari en fólk hélt í fyrstu,“ segir Margrét Pála að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert