Stóráfallalaus Þjóðhátíð

Mikill fjöldi er á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum en þessi mynd …
Mikill fjöldi er á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum en þessi mynd var tekin í gærkvöldi. mbl.is/GSH

Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum hefur gengið stóráfallalaust að sögn Jóhannesar Ólafssonar yfirlögregluþjóns. Mikill mannfjöldi er í Eyjum um verslunarmannahelgina og á Jóhannes von á því að yfir 15 þúsund gestir verði á hátíðinni í kvöld. Veðrið hefur leikið við Þjóðhátíðargesti um helgina og segir Jóhannes að það skipti miklu máli varðandi alla umgjörð hátíðarinnar. 

Fjórir gistu fangageymslur lögreglunnar í Vestmannaeyjum í nótt. Einn þeirra fyrir líkamsárás en hann sló tennur úr manni í nótt. Hinir sitja inni fyrir ölvun og óspektir. 

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 2017.
Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 2017. mbl.is/GSH

Yfir 30 fíkniefnamál hafa komið upp á Þjóðhátíð síðan á fimmtudag og hald lagt á eitthvað magn fíkniefna. Í flestum tilvikum er um amfetamín og kókaín að ræða en í einu tilviki var lagt hald á um 20 grömm af hvítu efni segir Jóhannes í samtali við mbl.is. Í því tilviki er sá sem var með fíkniefnin grunaður um sölu á fíkniefnum.

Fjölmennt lið lögreglu er við störf í Vestmannaeyjum og að sögn Jóhannesar fékk lögreglan í Vestmannaeyjum liðsstyrk víða af landinu og oft komi sömu lögreglumennirnir ár eftir ár til þess aðstoða við löggæslu um verslunarmannahelgina. Sex lögreglumenn með þrjá fíkniefnahunda sinna einvörðungu fíkniefnaeftirliti og um 120 gæslumenn eru að störfum á vegum aðstandenda hátíðarinnar og verða þeir mun fleiri á vakt í kvöld á lokakvöldi Þjóðhátíðar.

Spurður út í fjöldann á Þjóðhátíð segir Jóhannes erfitt að gefa upp nákvæma tölu. Vitað sé að Herjólfur hafi flutt um 10 þúsund manns til Eyja, heimamenn eru auðvitað einnig á Þjóðhátíð og svo hafa margir flogið til Eyja. „Þetta er mikill fjöldi og ég get ímyndað mér að þetta verði 15 til 16 þúsund manns í brekkunni í kvöld,“ segir Jóhannes.

Áttan á Þjóðhátíð í gærkvöld
Áttan á Þjóðhátíð í gærkvöld mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert