Engar uppsagnir fyrirhugaðar

Kísilverksmiðjan United Silicon í Helguvík.
Kísilverksmiðjan United Silicon í Helguvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hvorki er búið að meta kostnað né fjármagna endurbætur á kísilverksmiðjunni United Silicon svo starfsemi geti hafist að nýju, að sögn Kristleifs Andréssonar stjórnanda öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon.

Héraðsdóm­ur Reykja­ness veitti í dag United Silicon greiðslu­stöðvun í þrjá mánuði, eða til 4. des­em­ber, svo að freista megi þess að koma rekstri verk­smiðjunn­ar á rétt­an kjöl. Fyrir helgi stöðvaði Um­hverf­is­stofn­un rekst­ur verksmiðjunnar. 

Allir 85 starfsmenn verksmiðjunnar mættu til vinnu í dag. „Það er ætlunin að allir haldi vinnunni,“ segir Kristleifur spurður hvort allir starfsmenn muni halda vinnunni næstu þrjá mánuði. Starfsmennirnir sinntu hinum ýmsu störfum í dag t.d. undirbjuggu endurbætur, tóku til og margt fleira að sögn Kristleifs. Ofnarnir eru ekki starfræktir og verða ekki ræstir nema með skriflegu leyfi Umhverfisstofnunnar eftir endurbætur og úttekt.

Kristleifur tekur fram að enginn þeirra 85 starfsmanna verksmiðjunnar séu á vegum starfsmannaleigu. Hins vegar eru þeir ekki allir íslenskir ríkisborgarar en þeir greiða alla skatta og skyldur hér á landi. 

Taka sér tíma í endurbætur

Við tökum þann tíma sem þarf í endurbætur,“ segir Kristleifur spurður hversu langan tíma endurbæturnar taki. Nú sé unnið hörðum höndum að því að meta umfang og kostnaðinn. 

„Við höfum fulla trú á því að þetta gangi eftir og við komust í gang með vinnustað í sátt við samfélagið,” bætir Kristleifur við spurður hvort hann hafi trú á að það náist að landa nauðasamningum við kröfuhafa og að starfsemin geti hafist aftur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert