17 þyrluflug um flóðasvæðið í dag

Þjóðvegur 1 er lokaður við Hólmsá á Mýrum þar sem …
Þjóðvegur 1 er lokaður við Hólmsá á Mýrum þar sem vegur er í sundur. Ljósmynd/Hreggviður Símonarson/Landhelgisgæslan

Forsætisráðherra, vega­mála­stjóri, verk­stjóri Vega­gerðar­inn­ar og fulltrúar lög­reglu og björg­un­ar­sveita funduðu með bæjarstjórn Hornafjarðar um stöðu mála síðdegis í dag vegna mikilla vatnavaxta á Suðausturlandi. Smíðun bráðabirgðabrúar fyrir Steinavötn og lokun á skörðum í varnargörðum á Mýrum eru meðal brýnna verkefna sem farið var yfir á fundinum.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er þjóðvegur 1 enn lokaður bæði við Hólmsá á Mýrum þar sem vegur er í sundur, og við Steinavötn í Suðursveit þar sem brúin hefur laskast.

Þyrlur Landhelgisgæslunnar flugu 17 ferðir í dag til og frá flóðasvæðinu á Suðausturlandi. Þyrlurnar flugu meðal annars með mannskap frá vegagerðinni og RARIK sem sinntu ýmsum verkefnum á svæðinu. Þá sáu þyrlurnar einnig um að flytja skólabörn sem þurftu að komast til síns heima.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi hélt önnur þyrlan til Reykjavíkur í kvöld en hin verður til taks ef á þarf að halda, að minnsta kosti til morguns.

Undirbúningsvinna við bráðabirgðabrú yfir Steinavötn er þegar hafin. Reyn­ir Gunn­ars­son, verk­stjóri Vega­gerðar­inn­ar á Höfn í Hornafirði, segir í sam­tali við mbl.is að vinna við brúna hefjist að fullu á morgun. Tveir brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar hafa verið kallaðir til og mun hluti þeirra fara á staðinn í kvöld. Stefnt er að því að byrjað verði að reka niður staura í undirbyggingu fyrir ok nýrrar brúar um hádegi á morgun. Þá greinir lögreglan á Suðurlandi frá því að vinnuflokkur hefur unnið að smíði fleka í brúargólfið á Selfossi. Flekarnir verða síðan fluttir austur og hífðir á stálbitana. 

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa sinnt ýmis konar verkefnum í dag …
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa sinnt ýmis konar verkefnum í dag vegna flóða á Suðausturlandi. Ljósmynd/Hreggviður Símonarson/Landhelgisgæslan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert