Ekki boðlegt að fá 250 þúsund fyrir fulla vinnu

Lilja Rafney sagði að tengja þyrfti lægstu launin við laun …
Lilja Rafney sagði að tengja þyrfti lægstu launin við laun borgar- eða bæjarstjóra, jafnvel þingmanna og ráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekki boðlegt í okkar ríka samfélagi að fólk fái fyrir fulla vinnu 250 þúsund krónur útborgaðar, vitandi að enginn getur framfleytt sér á þeim launum. Við höfum látið gera úttekt á framfærsluviðmiðum sem eru langt yfir þá tölu, það er bara hinn kaldi veruleiki hvað sem öll Excel-skjöl segja,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í umræðu um störf þingsins á Alþingi í dag.

Gerði Lilja Rafney yfirstandandi verkfall starfsfólks Eflingar sem starfar hjá Reykjavíkurborg að umtalsefni. Benti hún á, að að stærstum hluta væri að ræða lágalaunakonur sem skrapað hefðu botninn í launamálum hér á landi allt of lengi. Hversu vel sem reynt hafi verið að hífa laun þeirra upp hafi það ekki gengið.

Sagði hún að nú yrði að fara að horfa á þetta einangrað og tengja lægstu launin við einhver viðurkennd laun. Hvort sem það væru laun bæjar- eða borgarstjóra í viðkomandi sveitarfélagi, laun þingmanna eða ráðherra, en að launin væru alltaf hlutfall af þeirra launum og fylgdu þeim.

Lífskjarasamningarnir ekki fyrir alla

„Ég er mjög ánægð með lífskjarasamningana sem gerðir voru, og hafa að mörgu leyti lyft upp launum, og margar hliðaraðgerðir, hvort sem er í heilbrigðiskerfinu eða skattakerfinu, en við verðum bara að horfast í augu við að það eru stórir hópar, að stórum hluta láglaunakonur og líka láglaunakarlar, sem vinna á launum sem eru ekki boðleg fyrir íslenska þjóð.“

Guðmundur Ingi segir lífskjarasamningana ekki fyrir alla.
Guðmundur Ingi segir lífskjarasamningana ekki fyrir alla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, talaði á svipuðum nótum og Lilja Rafney. Hann spurði hvernig í ósköpunum við hefðum fengið það út að fólkið sem passaði börnin okkar ætti að fá 250 þúsund krónur útborgaðar í launum. Hann spurði hvort það ætti virkilega að senda þau skilaboð að lífskjarasamningarnir væru fyrir alla.

„Lífskjarasamningarnir eru ekki fyrir alla. Það er þegar búið að taka öryrkja út. Það er þegar búið að taka eldri borgara út. Það er þegar búið að taka atvinnulausa út og það kemur aldrei til greina að þeir sem eru á félagsbótum fái lífskjarasamninga. En við breytum í prósentum. Við látum þá sem hafa hæst fá mest og sjáum til þess í prósentum að þeir sem þurfa mest á að halda fái minnst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert