„Þarf alltaf köku?“

Snorri Magnússon ávarpar samstöðufund BSRB, BHM og Félags hjúkrunarfræðinga í …
Snorri Magnússon ávarpar samstöðufund BSRB, BHM og Félags hjúkrunarfræðinga í Háskólabíói 30. janúar í ár þar sem umræðuefnið var kjarasamningar, eða öllu heldur fjarvera þeirra. Hjúkrunarfræðingar undirrituðu kjarasamning sinn rétt í þessu. Ljósmynd/Jón Svavarsson

„Staðan er einfaldlega sú að við erum núna búin að vera með lausa samninga í heilt ár eins og ýmsir aðrir opinberir starfsmenn,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, í samtali við mbl.is um stöðu kjaramála þessa dagana.

Segir Snorri lögreglumenn hafa verið samferða fleiri stéttum hins opinbera í vinnu varðandi svo dæmi sé tekið styttingu vinnuvikunnar „sem kláraðist rétt áður en skellt var í lás vegna kórónuveirunnar“.

Segir Snorri nú komið að lögreglumönnum að ræða sérmál stéttarinnar, svo sem launaliðinn. „Það er engin launung á því að við kjarasamningagerðina árið 2015 var unnið skipulega að því, í framhaldi þeirra viðræðna, að færa uppbyggingu launatöflu okkar aftur til þess horfs sem var áður en launatöflur tóku almennt að skekkjast, í innbyrðis samræmi þeirra og í raun að eyðileggjast frá og með öllum kjarasamningum sem gerðir voru haustið 2008 og allt fram til 2015,“ segir Snorri.

Innbyrðis ójafnvægi í launatöflu

Bætir hann því við að einhver félög hafi fengið töflur sínar leiðréttar nú þegar, en lögreglumenn sitji hins vegar eftir með óleiðrétta töflu og auk þess innbyrðis ójafnvægi í henni. Enn eigi auk þess eftir að útkljá bókun sem kom inn í kjarasamninginn árið 2015. „Það er svokölluð bókun 7 sem á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1987,“ útskýrir Snorri. „Þá kom inn í kjarasamninginn sérstakt fylgiskjal um vopnaburð lögreglumanna. Í grunninn snýst málið einfaldlega um að búið er að stórauka ábyrgð lögreglumanna með breyttu fyrirkomulagi varðandi til dæmis staðsetningu skotvopna en algerlega án þess að ríkisvaldið hafi tekið tillit til þess í launasetningunni,“ segir Snorri.

Snorri Magnússon segir langlundargeð íslenskra lögreglumanna með ólíkindum.
Snorri Magnússon segir langlundargeð íslenskra lögreglumanna með ólíkindum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á sínum tíma hafi verið gengið frá sérstakri greiðslu til handa lögreglumönnum vegna vopnaburðar og starfsskyldna vegna þeirra auknu ábyrgðar, sem honum fylgdi, sem skyldu þá taka laun sem lögreglumenn í sérhæfðu starfi. Það samkomulag hafi verið fellt úr kjarasamningum haustið 1997 enda hafi á þeim tíma verið búið að ganga sérstaklega frá greiðslum með öðrum hætti til þeirra lögreglumanna sem störfuðu í vopnaðri sveit lögreglumanna, sem á þeim tíma var eingöngu sérsveit lögreglunnar.

Aukin ábyrgð á sömu launum

„Á umliðnum árum hefur starfsumhverfi lögreglumanna tekið algerum stakkaskiptum og er málum háttað þannig nú til dags að almennir lögreglumenn hljóta mun meiri og tíðari þjálfun í notkun skotvopna en var á þeim árum þegar gengið var frá ofangreindum atriðum í kjarasamningi.  Almennum lögreglumönnum er nú ætlað meira og stærra hlutverk en áður í viðbragði við vopnamálum og er, í almörgum tilvikum, búið að færa skotvopn, sem áður voru geymd inni á lögreglustöðvum, í sérstakar læstar hirslur í lögreglubílum,“ segir í minnisblaði Landssambandsins um áðurnefnda bókun 7 frá 1987.

Kemur þar enn fremur fram að Landssamband lögreglumanna hafi rætt við samninganefnd ríkisins árin 2013 og 2014 um þetta gjörbreytta landslag og stóraukna ábyrgð sem lögð væri á herðar lögreglumanna. „Ekkert þokaðist í samkomulagsátt í þessum efnum sem aftur varð til þess, við kjarasamningsgerð Landssambands lögreglumanna, árið 2015, að málið var enn á ný tekið út fyrir sviga, að þessu sinni með svokallaðri „Bókun 7“. Enn og aftur voru báðir samningsaðilar fullmeðvitaðir um inntak bókunarinnar og tilgang hennar sem var að endurspegla, með einhverjum hætti, í launum lögreglumanna, þá auknu ábyrgð sem búið var að leggja á herðar þeim með aukinni þjálfun og breyttu landslagi varðandi geymslu skotvopna,“ segir í minnisblaðinu og aukinheldur að Landssamband lögreglumanna krefjist þess að lögreglumenn fái greitt fyrir þá ábyrgð og áhættu sem fylgi störfum þeirra, ekki síst hvað vopnaburð snertir. Til þessa beri atvinnurekanda að taka tillit.

Þarf að færa ráðherra köku?

„Langlundargeð lögreglumanna í þessum efnum hefur verið ótrúlegt,“ segir Snorri og bætir því við að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem lögreglumenn standi samningslausir í rúmt ár. „Síðast gerðist það í fjármálaráðherratíð núverandi forseta Alþingis [Steingríms J. Sigfússonar]. Við færðum honum meira að segja köku utan við Alþingi í tilefni þeirra tímamóta,“ rifjar Snorri upp. „Hann einhverra hluta vegna gat ekki veitt henni viðtöku sjálfur, en bað starfsmann Alþingis um að taka við henni.

Lögreglumenn afhenda þáverandi fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, köku fyrir utan …
Lögreglumenn afhenda þáverandi fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, köku fyrir utan Alþingishúsið í maí 2010 til jarteikna um samningaleysi sitt. Ráðherra veitti kökunni þó ekki viðtöku í eigin persónu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ef það er það sem þarf til að ná samningi, að færa fjármálaráðherra köku, þá er það ekki stóra málið fyrir okkur og algjör óþarfi að draga samninga á langinn fyrir eina almennilega köku, en þarf alltaf köku?“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert