„Hámark í eigin þvættingi“

Þingmönnum Sjálfstæðisflokksins mislíkar framsetning Björns Levís Gunnarssonar á mætingu þingmanna …
Þingmönnum Sjálfstæðisflokksins mislíkar framsetning Björns Levís Gunnarssonar á mætingu þingmanna á nefndarfundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmönnum Sjálfstæðisflokksins finnst ekki mikið varið í bókhald Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um mætingu þingmanna á nefndarfundi. 

Björn Leví birti í dag tölfræði um mætingu þingmanna á fundi, sem aflað er sjálfkrafa úr fundargerðum þingsins. Reiknaði hann út mætingarhlutfall fyrir hvern þingmann, sem byggist á fjölda þeirra nefndarfunda sem þingmaðurinn mætti á sem hlutfall af þeim fundum sem hann „átti að mæta á“ en til hins síðarnefnda teljast allir fundir í nefndum þar sem viðkomandi er aðalmaður.

Sumir þingmenn, eins og Björn Leví sjálfur, eru áheyrnarfulltrúar í tilteknum nefndum. Björn Leví er til að mynda áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd og því ekki gert ráð fyrir mætingu hans á þá fundi samkvæmt hans eigin formúlu. Fyrir vikið fær hann mætingarhlutfallið 163%. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra bendir á þetta á Twitter.

Ótækur samanburður á stundvísi

Í gögnum Björns Levís er einnig litið til stundvísi þingmanna. Kom þar fram að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði verið manna óstundvísastur og samanlagt hefði hann mætt 13 klukkustundum og 42 mínútum of seint á nefndarfundi.

Eðlilegt væri þó að taka tillit til þess að fáir þingmenn hafa mætt á fleiri nefndarfundi en Ásmundur, eða 170. Samanlögð óstundvísi upp á 13 klukkustundir og 42 mínútur jafngildir því að mæta rétt tæplega fimm mínútum of seint á hvern fund.

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Björn Leví hafi náð „einhvers konar hámarki í eigin þvættingi“ með þessari samantekt. Þannig hafi hann sjálfur verið settur á tossalista fyrir það að mæta samanlagt 733 mínútum of seint á 166 fundi, eða sem nemur fjórum mínútum á hvern fund.

Reynslan sýnir að það tekur yfirleitt a.m.k. 5-10 mínútur að byrja fundina efnislega. Að meðaltali (!) hef ég þá ekki misst af einu einasta efnisatriði á þeim 166 fundum sem ég hef sótt!“ segir Páll.

Sigríður Andersen, formaður utanríkismálanefndar, tjáir sig einnig um listann á Facebook en hún fékk þar bestu einkunn fyrir stundísi.

Sigríður segir heimilismenn sína og þá sem hana þekkja hlæja dátt að því, en á því sé þó einföld skýring.

Sem formaður utanríkismálanefndar setji hún fundi nefndarinnar og fundirnir hefjist ekki án hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert