Segir Sósíalistaflokkinn ekki jafn trúverðugan

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hlakkar til kosninga í haust.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hlakkar til kosninga í haust. mbl.is/Kristinn Magnússon

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og þingmaður, segist aðspurð ekki hafa áhyggjur af innkomu Sósíalistaflokksins á svið stjórnmálanna þrátt fyrir að flokkarnir leggi að einhverju leyti áherslu á svipuð mál.

Hún var gestur Kristjáns Kristjánssonar í Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

„Með fullri virðingu fyrir okkar góðu félögum í Sósíalistaflokknum þá myndi ég segja að það væri svolítið öðruvísi tónn þar, svolítið öðruvísi laglína. Í Flokki fólksins eru akkúrat einstaklingar sem hafa búið við þau kjör og búið á þeim stað sem þeir eru að berjast fyrir, á hinum staðnum er kannski ekki alveg jafn mikill trúverðugleiki,“ segir Inga.

Kannanir sýna flokkinn rétt svo inni á þingi

Fylgi Flokks fólksins mældist 5,5 prósent í síðustu könnun MMR sem var birt þann 7. júlí, sem er svipað og fylgi Sósíalistaflokksins, sem var 5,3 prósent.

Báðir flokkar myndu því ná naumlega inn á þing ef niðurstöður kosninga yrðu á þá leið.

Inga segir framtíð Flokks fólksins bjarta og hlakkar til kosninga í haust. Hún og Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður hafi lagt fram fjöldamörg mál til að bæta hag þeirra sem hafa það verst og fengið þrjú þeirra samþykkt.

„Ég trúi því að kjósendur muni sjá að við erum sönn og einlæg í því sem við erum að gera,“ segir hún.

Hún telur að sjávarútvegsmálin muni vega þungt í næstu kosningum og gagnrýnir að frumvarp um breytingar á stjórnarskránni hafi ekki náð fram að ganga.

Hún telur Sjálfstæðisflokkinn hafa staðið í vegi fyrir því vegna andstöðu við nýtt auðlindaákvæði og hafi dregið þingið á asnaeyrunum á kjörtímabilinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert