„Við bara heimtum okkar pláss!“

„Við bara heimtum okkar pláss,“ sagði Helgi Pétursson, formaður Landssambands …
„Við bara heimtum okkar pláss,“ sagði Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara. mbl.is/Unnur Karen

Fjölmennt var á Austurvelli í dag á útifundi Gráa hersins sem boðaður var í tilefni af því að aðalmálflutningur hófst í máli þriggja félaga Gráa hersins gegn Tryggingastofnun f.h. íslenska ríkisins. Málið er höfðað vegna skerðinga stofnunarinnar á ellilífeyri og heimilisuppbót á móti greiðslum frá lífeyrissjóðum.

„Við höfum barist fyrir þessu lengi, við byrjuðum að undirbúa þetta fyrir einhverjum fjórum árum en þetta tekur sinn tíma og leit dagsins ljós í morgun. Svo verður dómur kveðinn upp væntanlega eftir mánuð,“ segir Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, sem jafnframt var fundarstjóri í dag.

Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara.
Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara. mbl.is/Unnur Karen

Hann segir gaman að sjá hve fjölmennt var á Austurvelli í dag, það sé klárlega uppsöfnuð reiði meðal fólks. „Það er yndislegt veður og fólk vill sinna þessu, ég held náttúrulega að það hefði örugglega verið fleiri þar sem það eru smit í gangi og annað slíkt en fólk vill leggja þessu lið.“

Helgi hóf fundinn á að kynna málsóknina, Flóki Ásgeirsson lögmaður gerði síðan þar á eftir grein fyrir málflutningi beggja aðila málsins.

„Það er svo margt í samskiptum hins opinbera við eldra fólk og löngu komið að því að við rísum upp. Við erum bara frísk og flott og í fína lagi, með áhugamál, ferðumst og gerum þetta og hitt. Við erum ekki neinir aumingjar og við erum ekkert að fara að leggjast upp á samfélagið eða neitt slíkt, við bara heimtum okkar pláss!“

Örn Árnason og Jónas Þórir fóru með gamanmál.
Örn Árnason og Jónas Þórir fóru með gamanmál. mbl.is/Unnur Karen

 „Er þetta rétt að svipta fólk þessum réttindum?“

Þórhildur Þorleifsdóttir, leikstjóri og fyrrum alþingiskona, var með erindi á fundinum sem hlaut góðar undirtektir. Þar spurði hún hvort rétt sé að svipta fólk þessum réttindum sínum.

„Ellilífeyrir sem einu sinni féll nú öllum í skaut er núna skertur, þ.e.a.s. ef að fólk nær einhverjum tekjum t.d. úr lífeyrissjóði sem að fara yfir visst mark að þá byrja þessi réttindi að skerðast og þau skerðast æ meir eftir því sem að viðkomandi vinnur meira eða á hærri greiðslu úr lífeyrissjóði.

Um það stendur styrinn, er þetta rétt að að svipta fólk þessum réttindum,“ segir hún í samtali við mbl.is

Þórhildur Þorleifsdóttir, leikstjóri og fyrrum alþingiskona.
Þórhildur Þorleifsdóttir, leikstjóri og fyrrum alþingiskona. mbl.is/Unnur Karen

Hún segir fólkið hafa borgað skatta hér í um hálfa öld, svo að flestum finnist nú þau eiga eitthvað inni en einungis það fé sem þau safnað hafa sjálf.

Útilokun úr samfélaginu

„Þetta brennur auðvitað á mörgum en það er auðvitað margt annað sem brennur líka á fullorðnu fólki og það er þessi útilokun úr samfélaginu,“ segir Þórhildur.

„Eins og við sjáum þegar við lítum yfir þennan hóp, gamalt fólk er ekki það sem þér dettur fyrst í hug. Við erum við miklu betri heilsu og lifum lengur við betri heilsu og flestum okkar fellur illa að vera hálf ýtt út úr samfélaginu eins og við séum einskis nýt.“

Hún segir fullorðið fólk sitja uppi með svo mikla kunnáttu og þekkingu sem ekki sé nein glóra í að nýta ekki. 

mbl.is/Unnur Karen
mbl.is/Unnur Karen
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert