Vildu fá skattsvikara í atvinnurekstrarbann

Héraðsdómur Reykjaness
Héraðsdómur Reykjaness mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag karlmann í 16 mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna meiri háttar brots gegn skattalögum með því að hafa svikist undan því að greiða samtals 88 milljónir í skatta í tengslum við rekstur á einkahlutafélaginu SA verktakar, en maðurinn, Andrei Buhhanevits, var bæði framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í félaginu.

Var honum jafnframt gert að greiða tvöfalda upphæð í sekt, eða 177 milljónir.

Samkvæmd dómi héraðsdóms játaði maðurinn skýlast að hafa ekki staðið skil á tæplega 41 milljón í virðisaukaskatt árið 2021 og að hafa ekki greitt staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna frá því í júní 2021 til mars á þessu ári, en heildarupphæðin nam 47,6 milljónum.

Þetta er í annað skiptið sem maðurinn hlýtur dóm vegna skattalagabrota, en árið 2012 var hann sakfelldur fyrir slíkt brot og gert að greiða um 100 milljónir í sekt.

Saksóknari fór í málinu fram á að manninum yrði gert að sæta atvinnurekstrarbanni. Heimild til að beita því bættist inn í almenn hegningarlög árið 2019 og hefur aðeins einu sinni verið beitt síðan. Þá hlaut hinn ákærði vægari dóm, eða tólf mánuði, en brotin voru þó vegna skattalagabrota í fjórum félögum sem öll urðu gjaldþrota. Bannaði héraðsdómur manninum að stofna félag með takmarkaðri ábyrgð eða sitja í stjórn félags í tvö ár í kjölfarið.

Segir í dóminum núna að þó ekki sé vikið sérstaklega að ástæðum þess að ákvæðinu væri beitt í fyrri dómi, þá megi ætla að fjöldi félaganna hafi skipt máli við beitingu þess. Telur dómurinn að í þetta skiptið séu hins vegar ekki skilyrði til beitingu ákvæðisins gagnvart Andrei.

Hlaut hann sem fyrr segir 16 mánaða skilorðsbundinn dóm og var gert að greiða 177 milljónir í sekt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert