Fordæma hræðileg mannréttindabrot Rússa

Þórdís Kolbrún og Marija Pejčinović Burić, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, sendu frá …
Þórdís Kolbrún og Marija Pejčinović Burić, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins, og framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Marija Pejčinović Burić, hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem kallað er eftir sameiginlegum aðgerðum vegna mannréttindabrota og glæpa sem framdir hafa verið í innrásarstríði Rússlands í Úkraínu.

Yfirlýsingin er send út í dag í tilefni alþjóðlega mannréttindadagsins.

„Við fordæmum eindregið þau hræðilegu mannréttindabrot sem Rússland fremur stöðugt, sum hver þau verstu sem sést hafa frá seinni heimstyrjöldinni. Við skorum á allt alþjóðasamfélagið að grípa til sameiginlegra og afgerandi aðgerða til að tryggja að allir sem hafa framið glæpi í Úkraínu í samhengi við innrás Rússa verði dregnir til ábyrgðar,“ segir í yfirlýsingunni.

Sáttmálinn á enn við um brot Rússa

Þær Þórdís Kolbrún og Burić minna einnig á að umgjörð mannréttindaverndar í Evrópu sé sú sterkasta í heiminum, þökk sé Mannréttindasáttmála Evrópu. Þótt Rússland sé ekki lengur aðili að ráðinu eigi sáttmálinn enn við um brot sem framin hafa verið af Rússum fyrir 16. september 2022. Nú þegar veiti Evrópuráðið Úkraínu þjálfun og sérfræðiaðstoð um ákvæði mannréttindasáttmálans varðandi rannsóknir á glæpum gegn mannúð á stríðstímum.

Í yfirlýsingunni er ennfremur vikið að leiðtogafundi Evrópuráðsins sem haldinn verður í maí nk. „Ljóst er að eitt helsta viðfangsefni fundarins verður möguleg aðkoma Evrópuráðsins að því að tryggja að þeir sem hafa framið alvarleg mannréttindabrot í tengslum við innrás Rússlands í Úkraínu verði dregnir til ábyrgðar. Leiðtogafundurinn hefur það að markmiði að endurnýja skuldbindingu aðildarríkja að „samvisku Evrópu“ á hæsta stigi og leiðtogahlutverki Evrópuráðsins sem verndara mannréttinda í álfunni,“ segir í yfirlýsingu þeirra Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur og Marija Pejčinović Burić.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert