Gistihús loki í vikunni ef verkföll halda áfram

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/RAX

Rekstraraðilar í ferðaþjónustunni búa sig nú undir verkfallsaðgerðir frá og með morgundeginum. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segist samt sem áður binda vonir við að samningar náist þar til annað kemur á daginn.

Hefjist verkföll aftur á morgun segir Bjarnheiður það koma til með að hafa stigmagnandi áhrif á rekstraraðstæður í ferðaþjónustunni sem muni hraka með hverjum deginum.

Hótel misvel í stakk búin

„Það er ómögulegt að segja hverjar afleiðingar verkfalls verða nákvæmlega en þetta er ekki björt sýn.“

Bjarnheiður segir að einhver gistihús muni þurfa að loka í vikunni ef verkfall hefst á morgun en þanþol þeirra gagnvart aðgerðum sem þessum sé misjafnt. Sum muni því þurfa að loka fyrr en önnur.

Ferðaskrifstofur erlendis fengið veður af málinu

Orðsporsáhættan fyrir Ísland sé að sama skapi töluverð en að sögn Bjarnheiðar eru fregnir af verkfallsboðunum þegar farnar að spyrjast út.

„Það er mikið af ferðafólki sem kemur í gegnum erlendar ferðaskrifstofur sem eru þá í viðskiptum við íslenskar ferðaskrifstofur. Það fólk er náttúrulega almennt í miklu sambandi og segir hvort öðru fréttir.“

Fundur samninganefndar Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hófst klukkan tíu í morgun en í samtali við mbl.is í gær sagði Ástráður Haraldsson viðræður gærdagsins hafa verið vonbrigði.

Verkfallsboðun Eflingar mun að óbreyttu halda áfram frá og með morgundeginum. Von er á frekar fregnum af kjaraviðræðum í Karphúsinu síðdegis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka