Kjarasamningar verði banabiti veitingageirans

Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT).
Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT). Ljósmynd/Aðsend

„Þetta gæti orðið banabiti margra. Ég veit að eftir ástandið eftir kórónuveirufaraldurinn og fleira þá eru margir á grensunni, og mörg lítil og meðalstór fyrirtæki hafa skuldsett sig til að halda sér á floti, en þetta mun verða reiðarslag fyrir marga.“

Þetta segir Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT).

Að sögn Aðalgeirs ríkir hálfgert neyðarástand í veitingageiranum. Vill hann að geirinn fái að komast að samningaborðinu í kjaraviðræðum.

„Við erum mjög uggandi yfir þessu ástandi með samningana og ef okkur er ekki hleypt að borðinu til að semja fyrir störf í greininni þá er þetta mjög svartsýnt, því miður.“

Hann segir Samtök atvinnulífsins og stéttarfélög ekki taka nægilegt tillit til fyrirtækja í veitingarekstri og gagnrýnir hvernig álagsgreiðslum er háttað hér á landi. Hann segir það mikilvægt fyrir veitingageirann að álagskaupi verði háttað eins og í nágrannalöndum og bendir á að um helmingur veltu hjá veitingastöðum fari í launakostnað.

Kjarasamningar komi illa út fyrir þau

„Við höfum séð hvernig samningurinn sem SA gerði við Starfsgreinasambandið er og það er að koma afskaplega illa út fyrir okkur vegna okkar sérstöðu. Ef við berum okkur saman við Norðurlöndin þá erum við að vinna með álag sem er prósentuhlutfall af dagvinnu en annars staðar er þetta föst krónutala.“

Hann segir að þau hjá SVEIT hafi beðið um að álagskaup verði föst krónutala hér á landi sömuleiðis og að ef sú verði raunin geti samtökin staðið við bakið á Eflingu um að hækka lægstu grunnlaunin. 

Hann bendir jafnframt á að hér á landi hefjist álag hjá fyrirtækjum í veitingarekstri fyrr en annars staðar. Hann segir að álagsgreiðsla hefjist eftir klukkan 20 á virkum dögum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og eftir klukkan 16 á laugardögum og sé allan sunnudaginn. Álagsgreiðsla fyrir veitingastaði á Íslandi hefst klukkan 17 á virkum dögum.

„Álagið er í raun rjóminn af launagreiðslum hjá okkur og það fer að miklu leyti til ungs og óreynds starfsfólks sem stoppar stutt við. Það er erfitt að byggja upp starfsemi með slíku fyrirkomulagi,“ segir hann og bætir við að örðugt sé að halda í lykilstarfsmenn vegna þessa þar sem erfitt er að gera betur við þau vegna núverandi fyrirkomulags. 

Fórnarlömb annarra hagsmuna

„Allir samningar sem okkur er skylt að hlíða hafa ekki tekið mið af sérstöðu greinarinnar sem er vinnutíminn. Við erum að vinna um 70 prósent utan hefðbundinnar dagvinnu. Það er erfitt að eiga við þetta í núverandi mynd.“

Spurður hvers vegna SA taki ekki meira tillit til fyrirtækja í veitingarekstri segir Aðalgeir að SA skilji stöðuna en þurfi að verja fleiri hagsmuni sem fyrirtæki í veitingageiranum eiga kannski ekkert heima með að mati Aðalgeirs.

„SA er gígantískt stórt hagsmunafélag og okkur finnst að þessir hagsmunir hafi ekki verið hafðir að leiðarljósi í rauninni sem fórnarlamb annarra hagsmuna.“

Sparkað í liggjandi mann

Aðalgeir bætir við að þegar að um helmingur veltu fyrirtækja í veitingageiranum sé laun gangi reiknidæmið ekki upp. 

„Ónefndur aðili í veitingageiranum nefndi við mig að fyrir hvern þúsundkall sem hann fær í kassann þarf hann að borga 520 krónur í laun.“

Að hans mati er verið að sparka í liggjandi starfsgrein. Bendir hann á að veitingageirinn sé enn að jafna sig eftir að kórónuveirufaraldurinn gekk yfir.

Aðalgeir segist þó vongóður um að það verði tekið tillit til þeirra í framtíðinni en að mögulega þurfi SVEIT að leita lagalegs réttar síns til að semja um sína framtíð.

Yfirlýsing SVEIT

Hægt er að lesa yfirlýsingu SVEIT í heild sinni hér fyrir neðan:

SVEIT getur ekki fyrir hönd félagsmanna sinna gengið að tilvonandi samningum SA og Eflingar. Ljóst er, miðað við málflutning að þeir samningar verði of dýrir og munu verða stórum hluta af greininni að falli. Engin innistæða er fyrir samskonar hækkunum og SGS samningurinn hefur haft í för með sér.

Það liggur alveg ljóst fyrir. Tölurnar úr greininni tala sínu máli.

Veitingastaðir á Íslandi borga hæstu laun í heimi og er það afleiðing þess að veitingageirinn fær ekki að semja fyrir sína grein, og situr því uppi með afar óhagstæða samninga. Þar sem hvorki er tekið mið né mark á augljósri sérstöðu greinarinnar. Ljóst er að breyting á umgjörð samningana verður að eiga sér stað. SVEIT vill leiðrétta launin með því að hækka dagvinnulaun en færa kvöldvinnu í sambærilegan strúktúr eins og gengur og gerist hjá öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Eftir að núverandi samningar við SGS tóku gildi er launahlutfallið komið í og yfir 50% en er í 25-30% í löndunum í kringum okkur.

Þetta þýðir að veitingarekstur mun ekki standa undir sér. Það er ekki hægt að hækka verðin svo mikið að enginn komi. Frekari verðhækkanir grafa undan samkeppnishæfni greinarinnar.

Þetta er raunveruleiki veitingareksturs sem samanstendur af um 800 fyrirtækjum sem að miklum meirihluta eru lítil og meðalstór fyrirtæki sem ekki fá að kjósa um samninginn þar sem þau eru ekki aðilar að SA. Því fá stór fyrirtæki og ólíkar atvinnugreinar með breiðari bök að kjósa um örlög veitingamanna. Þetta er með öllu óásættanlegt ástand.

Ekkert lát virðist vera á þessari þróun. Sem stefnir fjölbreyttri og mikilvægri atvinnugrein í hættu.

SVEIT telur 150 rekstraraðila sem reka 270 veitingastaði um allt land og eru því stærstu hagsmunasamtök landsins fyrir fyrirtæki á veitingamarkaði. Innan vébanda SVEIT er meirihluti starfsmanna sem stafa á veitingamarkaði eða um 7.000 stafsmenn.

Ótækt er að samtökunum sé synjað um sæti við kjarasamningsborðið en SVEIT hefur samningsumboð félagsmanna til gerð kjarasamnings. Því hefur SA ekki umboð til gerð kjarasamninga fyrir hönd fyrirtækja sem eru félagar SVEIT. Standi vilji stéttarfélaga til að semja um kjör starfsfólks innan sinna vébanda sem starfa hjá fyrirtækjum í SVEIT er eina leiðin til þess að ganga til viðræðna við SVEIT.

Í liðinni viku lagði SVEIT inn kröfu til núverandi samningaðila um viðræðna til kjarasamninga vegna starfa á veitingamarkaði en áður hafa Efling og Matvís hafnað því að gera samning við SVEIT þar sem þau kjósa að semja við SA. Þrátt fyrir að innan SA sé aðeins takmarkaður fjöldi veitingastaða.

Ef að félögin sjá sér ekki fært um að ganga til samninga við SVEIT munu þau leita til Ríkissáttasemjara í lok vikunnar.

Fyrir hönd stjórnar Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði,

Aðalgeir Ásvaldsson

Framkvæmdastjóri SVEIT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert