AGS: Þörf á frekara aðhaldi ríkisins

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kynnti nýlega fjármálaáætlun næstu fimm ára. …
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kynnti nýlega fjármálaáætlun næstu fimm ára. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að líklega þurfi frekari aðhaldsaðgerðir til að ná markmiðum stjórnvalda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á næstu fimm árum gæti ríkið þurft að fara í aðhaldsaðgerðir sem nema 1,0 til 1,5% af landsframleiðslu til að ná markmiðum sínum. Einnig ætti að verja öllum tekjum ríkisins umfram spár í opinberan sparnað. Áhættuþættir þegar kemur að auknum útgjöldum ríkisins felast meðal annars í aukinni eldvirkni á Reykjanesskaga, ófyrirséðri aukningu ríkisútgjalda í aðdraganda kosninga á næsta ári og alþjóðlegri niðursveiflu.

Aðhaldsstig Seðlabankans í baráttunni við verðbólgu er hæfilegt og ætti bankinn að fara að huga að hægfara lækkun vaxta þegar verðbólga fer undir 4% og skýr merki eru um að verðbólga leiti í markmið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem birt var í dag. Birtir sjóðurinn árlega slíka úttekt á stöðu og horfum í íslensku atvinnulífi.

Telja hagvöxt verða kröftugri en Seðlabankinn spáir

Í álitinu kemur einnig fram að AGS búist við nokkuð kröftugri hagvexti hér á landi í ár en Seðlabankinn gerir ráð fyrir. Þannig gerir AGS ráð fyrir 1,7% hagvexti í ár, meðan Seðlabankinn lækkaði í nýjustu Peningamálum hagvaxtarspá sína úr 1,9% niður í 1,1% á árinu. AGS gerir ráð fyrir að hagvöxtur á næsta ári verði um 2%. Þá telur AGS að verðbólga hjaðni í 4,8% í árslok og verði komin niður í 2,8% í árslok 2025, og að það gerist samhliða veikari innlendri eftirspurn, hófsamari hækkun innflutningsverðs og minni hækkun húsnæðisverðs.

Sjóðurinn segir að þó að áframhaldandi aðhaldssöm efnahagsstefna muni til skemmri tíma draga úr hagvexti séu horfur til meðallangs tíma áfram hagstæðar.

Líklega þarf að fara í frekari aðhaldsaðgerðir

AGS fer í áliti sínu vítt yfir og segir meðal annars að stjórn efnahagsmála hafi verið styrk og samræmd og það hafi dregið úr ójafnvægi innanlands og gagnvart útlöndum. Heilt á litið séu horfur góðar. Nú þegar hægi á hagkerfinu ætti efnahagsstefnan að tryggja mjúka lendingu, ná niður verðbólgu í markmið og auka smám saman við varasjóði til að auka framtíðarviðnámsþrótt gegn áföllum.

Segir í álitinu að markmið stjórnvalda í opinberum fjármálum frá og með þessu ári séu viðeigandi, en að líklega þurfi að fara í frekari aðgerðir til að ná fram því aðhaldi sem fyrirhugað sé til meðallangs tíma. Sem fyrr segir telur sjóðurinn að ríkið gæti þurft að fara í aðhaldsaðgerðir sem nemi 1,0 til 1,5% af landsframleiðslu á næstu fimm árum til að ná settum markmiðum, en tekið er fram að sumar aðgerðirnar hafi þegar verið settar fram í fjármálaáætlun, en hafi hvorki verið skilgreindar né framkvæmdar.

Fjórar tillögur að aðhaldsaðgerðum

Setur sjóðurinn fram fjórar hugmyndir að aðgerðum til að ná fram aðhaldinu. Þannig gætu stjórnvöld íhugað: „(i) að fækka vörum og þjónustu sem skattlögð er í lægra þrepi virðisaukaskatts, (ii) að draga úr skattastyrkjum, (iii) að auka skattlagningu á söluhagnað af fasteignum sem fólk á ekki lögheimili í (e. second homes) og fasteignum sem keyptar eru í fjárfestingarskyni (e. investment properties), og (iv) að snúa við aukningu raunútgjaldavaxtar miðað við fjármálaáætlun 2023-27.“

Hægfara lækkun vaxta 

Sjóðurinn telur aðhald Seðlabankans hæfilegt til að koma verðbólgu í markmið innan tveggja ára, en setur fram viðmið þegar kemur að vaxtalækkunum. Þannig segir að sendinefndin mæli með „hægfara slökun á aðhaldi peningastefnunnar í átt að áætluðum hlutlausum raunvöxtum þegar verðbólga og verðbólguvæntingar hjaðna inn fyrir 1-4% bilið og skýr merki sjást um að verðbólga leiti í markmið“. 

Verðbólga í síðasta mánuði fór niður í 6%, en nýjar verðbólgutölur verða kynntar í næstu viku.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir Seðlabankann hafa hæfilegt aðhald á peningastefnunni, en vill …
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir Seðlabankann hafa hæfilegt aðhald á peningastefnunni, en vill ekki að vextir verði lækkaðir fyrr en verðbólga er komin undir 4%. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tekið er fram að þó að húsnæðisverð sé áfram hátt og staðan á húsnæðismarkaðinum enn áhyggjuefni, þá hafi áhætta tengd því minnkað nokkuð þar sem nýlegar verðhækkanir hafi að mestu verið knúnar áfram af kerfislegum þáttum og einskiptisáhrifum.

Hins vegar er tekið fram að mikil fyrirgreiðsla banka vegna atvinnuhúsnæðis sé enn uppspretta áhættu, þó að hún sé minni en ella vegna lágs veðsetningarhlutfalls, hárra áhættuvoga og nýlegrar lendingar á lánum.

Kjarasamningar skref í rétta átt

Sjóðurinn telur nýgerða kjarasamninga stórt skref í rétta átt á vinnumarkaði og að þeir muni veita öryggi og stöðugleika. Þannig muni um 4% árleg meðalhækkun í meginatriðum vera í takt við verðbólgumarkmið og væntan framleiðnivöxt og þannig hjálpa til við að draga úr verðbólgu og varðveita samkeppnishæfni þjóðarbúsins.

Þó er tekið fram að kjarasamningunum hafi fylgt skuldbinding stjórnvalda um aukin félagsleg útgjöld og með tímanum væri æskilegt að draga úr hlutverki hins opinbera við kjarasamninga til að varðveita heilindi í opinberum fjármálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka