„Mitt hlutverk að sjá til þess að svo geti verið“

Samsett mynd/mbl.is/Hari/Eyþór/AFP/Marco Bertorello

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir að frumvarp sitt um „menningarframlag“ streymisveitna sé lagt fram til að hjálpa til við fjármögnun skapandi greina á Íslandi.

Skatturinn, sem myndi nema að hámarki 5% af áskriftartekjum streymisveitna, á við um bæði innlendar- og erlendar streymisveitur en myndi ekki bitna á íslenskum streymisveitum, að sögn forsvarsmanna Sýnar og Símans.

„Það sem ég vil er að innlend framleiðsla, hvort sem það sé hjá fjölmiðlum eða í kvikmyndum eða tónlist, að hún sé sem öflugust. Það er mitt hlutverk að sjá til þess að svo geti verið, það er að segja starfsskilyrði og rekstrarumhverfi,“ segir Lilja í samtali við mbl.is.

Álíka frumvörp í Noregi og Danmörku

Hún segir að frumvörp liggi fyrir á norska þinginu og danska þinginu um álíka menningarframlag og því komi hennar frumvarp fram á þessum tímapunkti.

Her­dís Dröfn Fjeldsted forstjóri Sýnar sagði í samtali við mbl.is að Sýn myndi senda inn umsögn í samráðsgátt stjórnvalda þess efnis að Sýn geti sótt um endurgreiðslu kostnaðar til Kvikmyndasjóðs. Und­ir nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi er slíkt ekki í boði fyr­ir eig­in fram­leiðslu ef efn­ið er ætlað til sýninga á eig­in sjón­varps­stöð eða efnisveitu, svo sem á Stöð 2+.

„Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða með Kvikmyndasjóði,“ segir hún og bætir við að íslensku streymisveiturnar hafi verið mjög öflugar við að framleiða innlent efni:

„Mér finnst bara mikilvægt að það sé innlend framleiðsla. Ég er ekkert endilega að horfa á það nákvæmlega hver er með það eða hvernig. Þegar við erum að víkka þetta út með þessum hætti þá er það bara eitthvað sem við þurfum að ræða hér í ráðuneytinu í samvinnu við Kvikmyndamiðstöð,“ segir Lilja.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir. mbl.is/Óttar

Samráð verður við íslensku streymisveiturnar

Hún segir engan vafa vera á því að samráð verði við íslensku streymisveiturnar við þessa lagasetningu.

„Frumvarpsgerðin og lagasetning verður betri með því að fá athugasemdir frá, eins og til dæmis þessum aðilum.“

Lilja nefnir að framleiðendur kvikmynda eða sjónvarpsefnis á Íslandi eigi kost á 25% endurgreiðslum af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi. Það eigi einnig við um fyrirtæki eins og Sýn.

„Endurgreiðslurnar eru sirka 50% og 50% til innlendra og erlendra aðila sem er auðvitað mjög gott.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka