Sýn mun skila inn umsögn um frumvarpið

Íslensku streymisveiturnar munu ekki greiða skattinn þar sem fjárfesting þeirra …
Íslensku streymisveiturnar munu ekki greiða skattinn þar sem fjárfesting þeirra til innlendrar framleiðslu nemur meira en 5% af áskriftartekjum. Samsett mynd/mbl.is/Hari/AFP/Marco Bertorello

Fyr­ir­huguð skatt­lagn­ing streym­isveitna í formi „menn­ing­ar­fram­lags“ mun ekki bitna á íslensku streymisveitunum Stöð 2+ og Sjónvarpi Símans premium. Framkvæmdastjóri Sýnar fagnar frumvarpinu en fyrirtækið mun þó skila inn umsögn.

„Við erum enn þá að rýna frumvarpið, en svona heilt yfir þá fögnum við þessu og þetta er heilt yfir í samræmi við áherslur okkar um að jafna leikinn við erlendar streymisveitur,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted í samtali við mbl.is.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, er með drög að frum­varpi í sam­ráðsgátt þar sem inn­lend­um og er­lend­um streym­isveit­um er gert að fjár­festa 5% af áskrift­ar­tekj­um sín­um með bein­um hætti í fram­leiðslu á inn­lendu hljóð- og mynd­efni.

Ef streym­isveiturn­ar gera það ekki þá er þeim gert að greiða fram­lag til Kvik­mynda­sjóðs að há­marki 5% af áskrift­ar­tekj­um af starf­semi veitn­anna hér á landi á ári.

Íslensku streymisveiturnar fjárfesta vel yfir 5%

Orri Hauksson, forstjóri Símans, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að skatturinn myndi ekki eiga við um Sjónvarp Símans premium þar sem fjárfesting þeirra í innlendri framleiðslu sé langt umfram 5% af áskriftartekjum.

Herdís Dröfn segir það sama vera upp á teningnum hjá Stöð 2+.

„Við erum þegar að fjárfesta vel yfir þessi 5% af áskriftartekjum,“ segir Herdís aðspurð og bætir því við að allt efni Stöðvar 2+ sé talsett og textað.

Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Sýnar.
Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Sýnar. mbl.is/Árni Sæberg

Vilja sækja um styrki hjá Kvikmyndasjóð

Undir núverandi fyrirkomulagi þá er ekki hægt að sækja um styrki til Kvikmyndasjóðs fyrir eigin framleiðslu ef efninu er ætlað eigin sjónvarpsstöð, eins og til dæmis hjá Stöð 2+.

„Við munum þó skila inn umsögn um frumvarpið þar sem það er sérstaklega mikilvægt að okkur sé gert kleift að sækja um styrki fyrir okkar eigin framleiðslu í Kvikmyndasjóð, fyrir innlenda dagskrárgerð. Við höfum ekki getað gert það hingað til þar sem við erum að reka okkar eigin sjónvarpsstöð,“ segir hún.

Hún segir að það þurfi að lagfæra orðalagið í frumvarpinu varðandi styrkveitingar úr Kvikmyndasjóði og mun umsögn Sýnar því meðal annars snúa að því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka