„Þetta snertir okkur ekki með beinum hætti“

mbl.is/Hari

Fyrirhuguð skattlagning streymisveitna í formi „menningarframlags“ mun í fljótu bragði ekki bitna á Sjónvarpi Símans premium.

Þetta segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, í samtali við mbl.is.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, er með drög að frumvarpi í samráðsgátt þar sem innlendum og erlendum streymisveitum er gert að fjárfesta 5% af áskriftartekjum sínum með beinum hætti í framleiðslu á innlendu hljóð- og myndefni.

Ef streymisveiturnar gera það ekki þá er þeim gert að greiða fram­lag til Kvik­mynda­sjóðs að há­marki 5% af áskrift­ar­tekj­um af starf­semi veitn­anna hér á landi á ári.

Er langt yfir þröskuldinum

„Fjórar af sex innlendum leiknum seríum sem voru sýndar í fyrra voru hjá okkur og sex af ellefu leiknum seríum sem eru sýndar í ár eru hjá okkur. Þetta snertir okkur ekki með beinum hætti, þessi þröskuldur með 5 prósentin. Við erum langt yfir því alltaf,“ segir Orri Hauksson í samtali við mbl.is.

Er­lend­ar streym­isveit­ur sem eru með starf­semi hér á landi eru Netflix, Disney+, Viaplay og Amazon Prime Video.

Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Orri Hauksson, forstjóri Símans. mbl.is/Golli

Hann segir að Síminn hafi ekki komið að neinu samráði við gerð frumvarpsins og gerir hann því ráð fyrir því að þetta sé upphafspunktur í ferlinu frekar en endapunktur. Hann á von á því að innlendar streymisveitur, Sjónvarp Símans premium og Stöð tvö +, eigi eftir gefa sitt álit á frumvarpinu þar sem ítarlegra verður farið yfir það í heild sinni.

Lengi talað fyrir jafnræði í samkeppni

Orri nefnir að Síminn hafi lengi talað fyrir jafnræði á milli íslenskra streymisveitna og erlendra streymisveitna til að jafna samkeppnisgrundvöll íslenskra fyrirtækja.

„Hugmyndin er greinilega að reyna að jafna [samkeppnisgrundvöll] þannig að aðilar séu í sömu spörum, sem er bara fín hugsun. En við eigum eftir að fá að skilja þetta og skoða betur,“ segir Orri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert