Jörðin skalf er þau tóku upp þætti á Íslandi

Brúin á milli heimsálfa á Reykjanesskaga þar sem Sorin kastaði …
Brúin á milli heimsálfa á Reykjanesskaga þar sem Sorin kastaði pílu á landakort fyrir næsta áfangastað. mbl.is/Travel by Dart

Sorin Mihailovici, sem framleiðir og leikur í raunveruleikaþáttunum Travel By Dart, tók nýverið upp tvo þætti á Íslandi. 

Sorin segir í samtali við mbl.is að upplifunin hafi verið mögnuð og þökk sé nokkrum frábærum Íslendingum þá muni milljónir manns um allan heim fá tækifæri til að sjá þetta stórkostlega land.  

„Í hverjum þætti þá kasta ég pílu á landakort af heiminum, með bundið fyrir augum, og fer á þann stað sem pílan lendir. Þegar við vorum að taka upp þátt á Taílandi þá kastaði ég pílu á kortið sem endaði við hliðina á Íslandi,“ segir Sorin er hann útskýrir hvernig þættirnir virka og hvernig hann endaði á Íslandi.

Eins og fyrr segir þá ná þættirnir til milljóna manns. Amazon Prime er búið að gera samning við þættina og verða báðar þáttaraðirnar sem komnar eru út nú sýndar þar í sumar, en auk þess er þriðja þáttaröðin rétt handan við hornið, en Íslandsferðin verður þar á meðal.

Áskrifendur að þeim sjónvarpsstöðvum og streymisveitum sem sýna þættina eru hátt í 400 milljónir.

Sorin við tökur á veitingastaðnum Ingólfsskála.
Sorin við tökur á veitingastaðnum Ingólfsskála. mbl.is/Travel by dart

Bakaði brauð á Laugarvatni

Sorin segir að það sem hafi verið honum minnisstæðast í ferðinni hafi verið að fljúga yfir Fagradalsfjall, tökur á Seljalandsfossi og Skógafossi sem og að kíkja á brúna á milli heimsálfa á Reykjanesskaga þar sem hann kastaði pílu á landakort fyrir næsta áfangastað.

„Þó ég hafi ferðast til yfir 80 landa þá bauð Ísland mér upp á margt nýtt og magnað til að upplifa og ég hef lofað sjálfum mér að koma aftur,“ segir Sorin sem gat ekki hamið sig og taldi upp enn fleiri staði sem honum fannst magnaðir.

„Að heimsækja Geysi og að finna fyrir 300 jarðskjálftum í aðdraganda nýja gossins var bara stórfenglegt. Þar að auki var magnað að sjá hvalina frá litlum bát rétt fyrir utan Reykjavík, sú minning mun lifa með mér að eilífu. Ég verð að bæta við í upptalninguna þegar ég bakaði brauð í jarðveginum hjá Fontana á Laugarvatni.“

Ferðalagið á Íslandi verður fyrsti þáttur í þriðju seríunni af …
Ferðalagið á Íslandi verður fyrsti þáttur í þriðju seríunni af Travel by Dart. mbl.is/Travel by Dart

Íslendingar góðir gestgjafar

Þættirnir ganga mikið út á að kynnast fólkinu sem býr á hverjum stað fyrir sig og Ísland er engin undantekning. Helling af fólki og fyrirtækjum á Íslandi hafi gert þættina að veruleika að sögn Sorins.

„Ég eignaðist vini á Íslandi sem munu fylgja mér út ævina eins og þau Sigrúnu Critikian de Almeida, Guðmann Þór Bjargmundsson, Garðar K. Vilhjálmsson, Friðrik Pálsson, Eyrún Aníta Gylfadóttir, Þórunni Eggertsdóttir, Luka Jagacic, Birgir Ómar Haraldsson, Sigrún Eir Óðinsdóttir de Almeida, Michelle Chong og Gunnar Björnsson. Þökk sé þessu fólki þá mun Ísland sjást á skjáum fólks út um allan heim.“

Sorin segir að tökur á þáttunum gangi ekki upp án hjálpar heimamanna og því þurfi alltaf gott fólk og fyrirtæki til að hjálpa til.

„Þess vegna verð ég að fá að þakka Norðurflugi, Berjaya hótel, bílaleigunni Geysi, Mink photo studios, Hótel Rangá, Ingólfsskála, Parliament hótel, Marina hótel og Reykjavík Natura hótel,“ segir Sorin að lokum.

Þriðja þáttaröð af Travel by Dart er í vændum og er hægt að nálgast þær á Amazon Prime.

Þriðja sería af þáttunum Travel by Dart er væntanleg á …
Þriðja sería af þáttunum Travel by Dart er væntanleg á næstunni. mbl.is/Travel by dart
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert