„Bæj­ar­fé­lagið verður aldrei samt eft­ir þetta“

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segist vona að hægt verði …
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segist vona að hægt verði að endurreisa bæinn en það þurfi að bíða og sjá. mbl.is/Ólafur

„Við vitum ekkert hvernig framtíðin verður og bæjarfélagið verður aldrei samt eftir þetta,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.

mbl.is tók Fannar tali er hann fundaði með viðbragðsaðilum í samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð í dag.

Sagði hann að jafnvel þó bestu sviðsmyndir gangi eftir þá sé gatnakerfið og veitukerfið í Grindavík að einhverju leiti nú þegar nokkuð laskað og þá séu skemmdir á sumum fasteignum. Þannig hafi margt raskast í lífi fólks. Líðan sé auðvitað ekki góð og bæði kvíði og óvissa um framtíðina.

„Langmestu skiptir þó að það voru engin líkamleg meiðsl á fólki eða þeim mun alvarlegri atburðir en andlega hliðin er auðvitað löskuð.“

Ótti fólks skiljanlegur

Fannar segir ótta fólks við að vera áfram í bænum við þessar aðstæður auðvitað vera skiljanlegan.

„Fólk hugsar meðal annars um skuldastöðu sína, atvinnustöðu sína og launatekjur.“

Hann segir að eðlilega geti fólk ekki sett sig í spor íbúa Grindavíkur um þessar mundir. Íbúar hafi þurft að yfirgefa húsin sín og aleigu sína. Mjög margir hafi farið í helgarfrí upphaflega, varla með föt til skiptana, og hafa svo ekki komist heim fyrr en nú.

„Það er búið að opna leiðir inn í bæinn, í öll hverfi, til að sækja brýnustu nauðsynjar og huga að húsunum.“

Bæjarstjórinn segir að menn á vegum bæjarins hafi farið um tveir og þrír saman til að kanna skemmdir og huga að veitumannvirkjum og frárennsli.

„Við teljum að skemmdir kunni að hafa orðið á frárennslismálum. Núna eru íbúarnir að koma og vitja sinna heimila og þá kemur í ljós hvernig ástandið er.“

Segir hann að þeir fáu sem hann sjálfur hefur heyrt frá segi ástandið á þeirra heimilum eiginlega betra en þeir hafi óttast. Þó segir hann að það megi ekki gera lítið úr þessu, því um stóralvarlegan hlut sé að ræða og margt sem bærist í huga fólks.

Á einum stað hefur heitavatnslögn farið í sundur og reykur …
Á einum stað hefur heitavatnslögn farið í sundur og reykur stígur upp úr sprungunni sem gengur í gegnum bæinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í Ráðhúsi Reykjavíkur

Stjórnsýslan innan Grindavíkur er að koma sér fyrir í Ráðhúsi Reykjavíkur.

„Við höfum ekki náð að funda neitt að ráði ennþá en erum í símasambandi. Það er reglulegur fundur boðaður á morgun og við ætlum að sjá til hvort við náum að halda þeirri tímasetningu eða ekki.

Við erum að koma okkur fyrir í Ráðhúsinu með gríðarlega góðri aðstoð Reykjavíkurborgar og við erum að koma okkur fyrir víðar með okkar aðstöðu í Reykjavík og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.

Öll hjálp er mjög mikil og það er að rætast úr ýmsum hlutum núna þó skammt sé um liðið. Við þökkum kærlega fyrir alla þá aðstoð. Það hafa fleiri þúsund manns gefið sig fram. Stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar. Það er ótrúleg samkennd og stuðningur við okkur.“

Segir hann verið að vinna úr þessum boðum kerfisbundið.

„Við setjum húsnæðismálin í forgang. Þó það hafi fáir leitað til fjöldahjálparmiðstöðva hingað til þá eru margir í tímabundnu skjóli hjá ættingjum og vinum og jafnvel í hótlerými. Það er lögð mikil áhersla á að reyna að koma sem flestum í varanlega aðstöðu.“

„Þarf ég að borga húsaleigu á sama tíma?“

Þá segir Fannar að verið sé að reyna að vinna að því að létta áhyggjum af fólki varðandi fjármálin.

„Þarf ég að borga húsaleigu á sama tíma og ég er að borga húsaleigu í Grindavík eða borga af lánunum mínum og svo framvegis? Hvernig verður hægt að bæta þær launatekjur sem fólk kann að missa niður?

Það er mikill velvilji í kerfinu að reyna að finna leiðir til að fólk lendi ekki í þessum hremmingum ofan á allt annað.“

Byrja á réttum enda

Varðandi skólahald þá segir hann að sú vinna standi yfir en það þurfi kannski að byrja á réttum enda.

„Við erum búin að fá upplýsingar frá öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu um hvaða rými kynni að vera laust til skólahalds. Það er ótrúlega mikið framboð og talsvert umfram það sem þörfin er fyrir alla grunnskólanemendur.

Við erum einnig að skoða stöðuna varðandi leikskóla. Það var fundur í dag með kennurum frá Grindavík og fólki af fræðslusviðinu okkar. Þar var fólk að ráða ráðum sínum.

Það er kannski ekki endilega hægt að fara í þetta í þessari röð. Á meðan fólk er í óvissu um það hvar það kemur til með að búa þá er eðlilegt að það sé dokað við og börnin ekki send í skólann fyrr en einhver framtíð fjölskyldunnar liggi fyrir.“

Segir Fannar meðal annars búið að leita til stéttarfélaga með húsnæði.

„Það er heilmikið af húsnæði stéttarfélaganna utan af landi á höfuðborgarsvæðinu og í seilingarfjarlægð við höfuðborgina.

Það eru hugmyndir um að færa til úrræði innan sveitarfélaga. Rýmka til fyrir Grindvíkinga á ákveðnum stöðum og það verði tilfærsla innan kerfisins.

Síðan er verið að leita til byggingarverktaka sem hafa tilbúin húsnæði til útleigu. Því hefur verið tekið vel og sveitarfélögin eru að vinna með þetta á sínum skipulagssviðum.

Vonandi getum við endurreist bæinn okkar

Hvaða tilfinningu hefur þú fyrir framtíð búsetu í Grindavík ef bærinn verður ekki fyrir meira hnjaski?

„Ég hugsa að það hafi fáir gert sér grein fyrir því eftir eldgosið í Vestamannaeyjum hversu blómleg byggð reis þar í framhaldi, eitthvert öflugasta sveitarfélag landsins á svipuðu hættusvæði og Grindavík ef svo má segja.

Vonandi verður framtíðin björt en það er vont að spá í það og það eru næstu vikur og kannski mánuðir sem skera úr um það hvernig ástandið verður.

Vonandi fer allt vel og við getum endurreist bæinn okkar en þetta er þannig atburður að það hefur örugglega áhrif á vilja til búsetu í bænum nákvæmlega eins og gerðist með Vestmannaeyjar.“

Verðum að bíða og sjá

Bæjarstjórinn segir Grindvíkinga alla tíð hafa staðið þétt saman þegar á reynir.

„Þetta er öflug verstöð um margar aldir og eitt öflugasta útgerðar- og fiskvinnslusveitarfélag á landinu.

Við vonumst til þess að okkar góði, sterki og vel stæði bær fái að blómstra áfram en við verðum að bíða og sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert