Lögregla hefur engu við frásögn Arndísar að bæta

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði að Arndís Anna …
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði að Arndís Anna hafi kosið sjálf að tjá sig um málið og sagði hana réttu manneskjuna til að ræða það. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hyggst ekki tjá sig um handtöku Arndísar Önnu K. Gunnarsdóttur, þingkonu Pírata. Arndís hefur sjálf tjáð sig um málið og segist lögregla engu við frásögn hennar hafa að bæta.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is að lögregla tjái sig ekki um einstök mál.

Ekið heim án eftirmála

„Aftur á móti hefur þingmaðurinn tjáð sig sjálf um málið og lögregla hefur engu við þá frásögn að bæta.“

Arndís Anna staðfesti við mbl.is í gær að hún hafi verið handtekin á skemmtistaðnum Kíkí queer bar í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt laugardags. Sagði hún að henni hafi verið ekið heim án eftirmála.

Ekki óvanalegt að fólki sé ekið heim

mbl.is óskaði eftir að sjá lögregluskýrslu vegna málsins en Halla sagði að lögregla afhendi fjölmiðlum ekki lögregluskýrslur vegna einstakra mála.

Halla ítrekaði að Arndís Anna hafi kosið sjálf að tjá sig um málið og sagði hana réttu manneskjuna til að ræða það.

Sagði Halla að lögregla fái reglulega aðstoðarbeiðnir frá skemmtistöðum og að hvert mál sé einstakt í þeim efnum. Hún sagði ekki óvanalegt að fólki sé ekið heim til sín að lokinni handtöku þó það sé ekki algilt.

Beri að færa handtekna fyrir varðstjóra

Ásgeir Þór Ásgeirs­son, yf­ir­lög­regluþjón hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, sagðist hvorki geta staðfest frásögn þingkonunnar né að lögregla hafi eitthvað við hana að athuga, þegar mbl.is leitaði eftir staðfestingunni.

Sagði hann að í þeim tilfellum þegar fólk sé handtekið þá beri að færa það fyrir varðstjóra, sem þýði yfirleitt að þeir sem séu handteknir séu færðir á lögreglustöð. Hann sagði að í einstaka tilfellum væri varðstjóri reyndar á vettvangi handtöku og að þá þyrfti ekki að færa þá handteknu á lögreglustöð en sagði það ekki algengt.

„Síðan getur skipt máli hvað liggur til grundvallar í málinu. Ítrekað kemur fyrir að það eru svo sem engar kröfur aðrar en að fólk óskist fjarlægt af staðnum, þá annað hvort eftir atvikum eftir því hvað er að gera og hvernig hlutirnir eru hvort menn taki leigubíl frá stöðinni, eru sóttir eða við keyrum þá heim.

Það er bara allur gangur á því og mat varðstjórans og lögreglumannanna á staðnum hver verkefnastaðan sé eða hvort þetta sé mikið úr leið miðað við hvar þeir eru starfskráðir í varðsvæðið. Það er bara fullt af breytum sem geta haft áhrif á það.“

Það má þá skilja það sem svo að þingmanninum hafi verið ekið heim í þessu tilviki og það sé ekkert óeðlilegt við það. Það fari eftir því hvað sé að gera og hvert bílarnir séu að fara og svo framvegis?

„Já, það er bara mat lögreglumannanna sem eru að afgreiða málið hvort þetta er hægt og hvort það sé fýsilegt,“ sagði Ásgeir.

Handtaka ekki algild í málum sem þessum

Hann sagði ekki algilt að þeir handteknu séu settir í handjárn, það sé gert til að tryggja öryggi lögreglumanna og þeirra handteknu sjálfra. Ásgeir gat ekki tjáð sig um það hvort Arndís Anna hafi verið sett í handjárn á aðfaranótt laugardags.

Þá sagði Ásgeir að í málum sem þessum þar sem lögregla sé kölluð til aðstoðar sé alls ekki algilt að fólk sé handtekið, hann segist aðspurður ekki geta útilokað að í einhverjum tilfellum hefði lögregla vísað viðkomandi út án allra eftirmála.

Í ljósi þess að Arndís Anna K. Gunnarsdóttir þingkona var sannarlega handtekin virðist vera sem svo að eitthvað hafi gengið á inni á skemmtistaðnum Kíkí queer bar aðfaranótt laugardags sem leiddi til þess að þingkonan var handtekin og færð fyrir varðstjóra á lögreglustöð áður en henni var ekið til síns heima.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka