„Ég var ekki að gera neitt sem fólki kemur við“

„Ég ætla ekki að tjá mig meira um þetta má …
„Ég ætla ekki að tjá mig meira um þetta má umfram þennan „status“ sem ég skrifaði,“ segir Arndís. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir, þingkona Pírata, segir rangt með farið í umfjöllun Nútímans þar sem greint er frá því að hún hafi verið ofurölvi á Kíkí og dáið áfengisdauða á salerni skemmtistaðarins áður en hún var handtekin af lögreglu.

Arndís Anna staðfesti í samtali við mbl.is í gær að hún hefði verið handtekin á skemmtistaðnum Kíkí aðfaranótt laugardags. Sagði hún dyraverði hafa reynt að vísa sér út eftir að hún var of lengi á salerni skemmtistaðarins. 

„Dyra­verðir óskuðu eft­ir aðstoð. Dyra­verðir voru bún­ir að snúa mig niður vegna þess að það átti að henda mér út fyr­ir að hafa verið of lengi á sal­ern­inu, það er bara svo­leiðis,“ sagði hún við mbl.is í gær.

Hvorugt er rétt

Í umfjöllun Nútímans er greint frá því að dyraverðir hafi uppgötvað að þingkonan væri læst inni á salerninu þegar vísa átti gestum út vegna lokunar. 

Þá kemur jafnframt fram að hún hafi verið flutt á lögreglustöð eftir handtökuna en sleppt þegar í ljós kom að skemmtistaðurinn vildi ekki leggja fram kæru. 

Er m.a. vitnað í dagbók lögreglu frá laugardeginum þar sem kemur fram: „Dyraverðir á skemmtistað í miðbænum óska eftir aðstoð lögreglu við að fjarlægja ofurölvi aðila af staðnum.“

„Þetta er slúður. Hvorugt er rétt,“ segir Arndís Anna.

Tjáir sig ekki frekar um málið

Spurð hvers vegna hún hefði verið svo lengi inni á salerninu kveðst hún ekki vilja svara því. 

„Ég var ekki að gera neitt sem fólki kemur við,“ segir Arndís Anna.

Spurð hvort hún telji hegðun sína þetta kvöld hafa brotið gegn siðareglum þingmanna, kveðst Arndís ekki ætla að tjá sig frekar um málið.

„Ég ætla ekki að tjá mig meira um þetta mál umfram þennan „status“ sem ég skrifaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert