Slæm hugmynd að slíta stjórnmálasambandi

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra er hvorki fylgjandi því að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael né að Íslendingar beiti þjóðina einhliða þvingunaraðgerðum vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs.

„Allar hugmyndir um að Ísland fari að beita einhliða þvingunaraðgerðum eru algjörlega gagnslausar. Það myndi engu skipta í neinu samhengi að Ísland beitti einhverju slíku, það myndi ekki virka sem þvingun,” segir Bjarni, sem ræddi við blaðamann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

„Það er heldur ekki góð hugmynd að slíta stjórnmálasambandi vegna átaka eins og þessara. Það rýfur allar diplómatískar leiðir. Sögulega höfum við ekki gripið til slíks ráðs nema einu sinni svo ég muni til sem var tímabundið gagnvart Bretum, sem þóttu hafa gengið of freklega fram gagnvart okkur,” bætir hann við.

Áhersla á mannúðaraðstoð og vopnahlé 

Bjarni segist heldur ekki vita til þess að þjóðir heimsins séu nokkurs staðar að ræða um að sameinast í þvingunaraðgerðum gegn Ísrael. Núna sé lögð áhersla á tvennt, þ.e. að koma mannúðaraðstoð til þeirra sem eru á Gasasvæðinu og í mikilli neyð og hins vegar að koma á vopnahléi á milli Ísraels og Hamas-samtakanna.

Afi palestínskrar stúlku, Sidal Abu Jamea, frá Khan Yunis heldur …
Afi palestínskrar stúlku, Sidal Abu Jamea, frá Khan Yunis heldur á líki hennar í morgun eftir að hún lést í kjölfar þess að hafa fengið sprengjubrot í höfuðið. AFP/Mahmud Hams

„Það sem hefur staðið í vegi fyrir því að það takist með varanlegum hætti, þó að það hafi verið tímabundið hlé um daginn, er að Ísraelsmenn hafa gert kröfu um að öllum gíslum verði sleppt úr haldi og af hálfu Hamas hafa komið upp kröfur um að tilteknum fjölda fanga verði sleppt á móti. Þetta hefur komið í veg fyrir því að menn næðu saman. Auk þess eru Ísraelsmenn augljóslega að vinna að því að lama allan aðgerðamátt Hamas-hreyfingarinnar, sem þeir telja vera nauðsynlegt þannig að þeir geti tryggt frið í eigin landi,” greinir utanríkisráðherra frá.

Fer hugsanlega til Noregs 

Spurður út í fundarhöld á næstunni vegna átakanna segir hann ekki útilokað að hann fari á fund sem er verið að skipuleggja í Noregi undir lok vikunnar á milli Norðurlanda, Benelux-ríkjanna og nokkurra arabaríkja til að ræða stöðu málið.

Ísraelsher skýtur í átt að Gasasvæðinu fyrr í dag.
Ísraelsher skýtur í átt að Gasasvæðinu fyrr í dag. AFP/Jack Guez

Inntur eftir því hvort slíkur fundur gæti haft áhrif á stöðu mála segir hann samtalið vera algjört grundvallaratriði og að menn láti rödd sína heyrast.

„Við skulum hins vegar vera raunsæ varðandi það að þeir sem hingað til haft langmest með framvindu mála að gera eru Bandaríkin, Katar, Egyptaland, Jórdanía og fleiri ríki sem hafa náð að hafa áhrif á það að vopnahlé væri gert.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert