„Þetta var ansi ógeðsleg sjón“

Evu Jónasdóttur brá heldur betur í brún þegar hún opnaði kryddstauk sem hún hafði keypt í Krónunni fyrir jólin.

„Ég tók ekki eftir neinu fyrr en ég var komin heim og fór að skoða þetta betur. Mér fannst vera eitthvað óeðlilegt í stauknum. Ég hélt í fyrstu að um myglu væri að ræða en þegar ég skoðaði þetta betur í góðri birtu þá kom annað í ljós. Það var allt morandi af ormum og það var ansi ógeðsleg sjón,“ segir Eva Jónasdóttir í samtali við mbl.is.

Brýnt að vekja athygli á málinu

Í kjölfarið birti Eva mynd og myndskeið á Facebook-hópnum Matartips sem í eru um 53 þúsund manns og vakti færslan mikla athygli. Hún hafði síðan samband við heilbrigðiseftirlitið.

„Mér fannst mjög brýnt að setja þetta strax á Facebook ef einhverjir hefðu keypt þessa vöru til að nota í jólamatinn og fá maðk í mysuna á aðfangadag. Eftir þessa uppákomu mun ég örugglega skoða vöruna betur í búðinni,“ segir Eva.

Í dag sendi svo Krónan frá sér í tilkynningu þess efnis að Krónan hefði í samráði við heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnaress innkallað krydd vegna skordýra sem fundust í vörunni.

Um er að ræða Bowl & basket Jalapeno Evrything Bagel Seasoning og er viðskiptavinum bent á að skila vörunni í viðeigandi verslun gegn fullri endurgreiðslu.

Kryddstaukurinn var allur morandi af ormum.
Kryddstaukurinn var allur morandi af ormum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert