Færeyingar mótmæla við íslenska sendiráðið

Sendiráð Íslands við Norðurbryggju í Kaupmannahöfn, höfuðborg Danmerkur.
Sendiráð Íslands við Norðurbryggju í Kaupmannahöfn, höfuðborg Danmerkur. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Færeyskir aðgerðasinnar efna til tvennra mótmæla gegn íslenskum stjórnvöldum í dag, annars vegar fyrir utan aðsetur íslenska ræðismannsins í Þórshöfn og hins vegar fyrir utan sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn.

Jákup Joensen Eskildsen, hjá færeysku aðgerðasinnasamtökunum Samhugi við Palestina, skipuleggur mótmælin í Þórshöfn.

Mótmælafundurinn er annars vegar haldinn til þess að sýna samstöðu með samstöðutjaldinu á Austurvelli – sem er nú orðið snjóvirki, frekar en tjald — og hins vegar til þess að mótmæla brottflutningi Palestínumanna frá Íslandi. 

Efndu til mótmæla um helgina

Eins og mbl.is greindi frá um helgina efndu No Borders á Íslandi til mótmæla fyrir utan lögreglustöðina við Hlemm í kjölfar þess að sérsveitarmenn tókuð palestínska fjölskyldu höndum til þess að vísa úr landi.

Samhugi við Palestina hefur verið í samskiptum við No Borders vegna mótmæla hér á landi.

Frá mótmælum við Hlemm í Reykjavík á sunnudag.
Frá mótmælum við Hlemm í Reykjavík á sunnudag. Ljósmynd/Aðsend

Laglaust af stjórnvöldum að vísa Palestínumönnum á brott

„Við teljum það sem íslenska ríkisstjórnin er að gera vera ósanngjarnt og nokkuð laglaust þegar þjóðarmorð er í gangi í Palestínu í augnablikinu,“ fullyrðir Jákup.

„Þannig að við höfum ákveðið að efna til mótmæla til að sýna samstöðu með þeim á Íslandi og við gerum sömu kröfur og þau,“ bætir hann við og vísar til mótmælendanna á Austurvelli.

Nokkrum vikum eftir að stríðið hófst á Gasaströndinni eftir hryðjuverk Hamas þann 7. október, tóku færeyskir aðgerðarsinnar eftir „háværri þögn“ í málefnum Palestínu, að sögn Jákups.

Þá hófst skipulag samstöðufunda og hafa þeir verið haldnir reglulega síðan.

Spurður hvers vegna samtökin mótmæli ekki frekar eigin landstjórn segir Jákup að þau séu þegar að því og hyggist einnig gera það áfram. Samtökin hafi oft krafið landstjórnina í Færeyjum um að þrýsta á dönsk stjórnvöld til þess að „reyna að stöðva þjóðarmorðið“, eins og aðgerðasinninn orðar það.

„Við höfum verið að fylgjast með ástandinu á Íslandi og lítum á þeirra baráttu sem okkar baráttu,“ segir hann.

Frá Þórshöfn.
Frá Þórshöfn. mbl.is/Sigurður Bogi

Anarkistar mótmæla á Norðurbryggju

Systurmótmæli hefjast á sama tíma fyrir utan sendiráð Íslands á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Mótmælin eru á vegum Frælsisfylkingar anarkistanna en samtökin lýsa sér sem byltingarsinnuðum frelsissósíalískum samtökum færeyskra aðgerðasinna, heima sem og erlendis.

Færeyski róttæklingurinn Vár Autumn Reinert Sommer-Winther, talsmaður Frælsisfylkingunnar, ræddi við mbl.is um mótmælin.

Hán segir að mótmælin á Norðurbryggju snúist um samstöðu með mótmælunum á Austurvelli og um að stöðva brottflutning Palestínumanna frá Íslandi, rétt eins og mótmælin í Þórshöfn.

„Við teljum mikilvægt að ljá þeim eyra“

„Ég held að það sé mikilvægt að við hlustum á Palestínumenn þar sem við erum. Palestínumenn hafa í augnablikinu verið fyrir utan íslenska þingið í 50 daga, að biðja um grundvallar hluti og einfalda hluti, frá náunganum og fólkinu í kringum sig. Við teljum það mikilvægt að ljá þeim eyra,“ segir Vár í samtali við mbl.is.

Beðið um að lýsa starfsemi Frælsisfylkingarinnar, svarar Vár: 

„Frælsisfylking anarkistanna er net anarkista og frjálslyndra sósíalista í Færeyjum og meðal Færeyinga sem búa erlendis. Við sameinumst lauslega í kringum anarkisma og andheimsveldisstefnu, og kippum okkur mikið upp við lögregluofbeldi og réttindi flóttamanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert