Mótmælandi réðst að Diljá Mist

Diljá Mist segir að sér sé brugðið.
Diljá Mist segir að sér sé brugðið. Samsett mynd/mbl.is

Karlmaður sem var þátttakandi í Palestínumótmælum fyrir utan Alþingi fyrr í dag kastaði hlut í bíl Diljár Mist Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Sagði hann henni að „fokka sér“ ítrekað og lét önnur fúkyrði fylgja.

Diljá kveðst vera brugðið yfir atvikinu, í samtali við mbl.is.

„Ég var að koma úr umræðum á þinginu og keyra upp rampinn hjá okkur. Auðvitað þarf maður að fara sér hægt til að gæta að gangandi vegfarendum og þá kastar fullorðinn karlmaður einhverju í bílinn minn og mér verður alveg svakalega um. Ég veit ekki hverju hann kastar í bílinn, fyrir það fyrsta, og svo er hann náttúrulega líka bara nálægt mér,“ segir Diljá Mist.

Lesandi sem varð vitni að atvikinu kveður hlutinn hafa verið snjóbolta. Spurð nánar út í eðli hlutarins segir Diljá að hún telji að um klaka hafi verið að ræða.

Aðallega að segja henni að „fokka sér“

Hún segir að ósjálfrátt hafi hún skrúfað niður rúðuna og spurt hvort að kastinu hafi verið beint að sér. Hún kveðst ekki hafa vitað hvað hún átti að halda og talið að hann væri mögulega í vandræðum.

„Mér bregður svo svakalega.“

Þá kom maðurinn nær Diljá og byrjaði að ausa hana fúkyrðum.

„Hann er aðallega að segja mér að fokka mér,“ segir Diljá og bætir við að þá hafi lögreglan skorist í leikinn.

„Ekkert annað en ofbeldi“

Tengdist þetta Palestínumótmælunum fyrir utan Alþingi?

„Já, um það snérust öskrin í minn garð. Hann var að öskra einhverjum ókvæðisorðum að mér, en aðallega að segja mér að „fokka mér“. Hann var að koma úr hópi sem stóð þarna – mótmælenda,“ segir Diljá.

Hún kveður sér ekki líða sérlega vel nú í kjölfarið. Fyrr um daginn hafði hún verið með dóttur sína í bílnum. Diljá segist vona að árásarmanninum líði vel með sig sjálfan eftir að hafa veist að henni.

„Það er ekki mjög stórmannlegt af fullorðnum karlmanni að veitast að lítilli konu. Það er náttúrulega bara ein tegund af mönnum sem gerir svoleiðis,“ segir hún og bætir við:

„Þetta er auðvitað ekki gert til neins annars en til að hræða fólk og valda því einhvers konar óöryggi og ónotum. Þetta er ekkert annað en ofbeldi auðvitað,“ segir Diljá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert