Umsækjendur í Palestínu ganga fyrir

Í skriflegu svari frá Útlendingastofnun kemur fram að umsóknir um …
Í skriflegu svari frá Útlendingastofnun kemur fram að umsóknir um fjölskyldusameiningarleyfi frá Palestínumönnum njóti forgangs hjá stofnuninni, ef umsækjendurnir séu staddir í Palestínu og falli undir ákvæði útlendingalaga um fjölskyldusameiningar. mbl.is/Hari

Umsóknir um fjölskyldusameiningarleyfi frá Palestínumönnum njóta forgangs hjá Útlendingastofnun ef umsækjendurnir eru staddir í Palestínu og falla undir ákvæði útlendingalaga um fjölskyldusameiningar.

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Útlendingastofnun við fyrirspurn mbl.is. Þar var meðal annars óskað eftir svörum um hvort aðrar umsóknir stofnunarinnar hefðu verið settar til hliðar svo afgreiða mætti þessar umsóknir á grundvelli fjölskyldusameiningar og hvort það hefði verið að ósk ríkisstjórnarinnar að þessar umsóknir yrðu samþykktar og keyrðar í gegn.

Þrír full­trú­ar ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins eru nú staddir í Kaíró, höfuðborg­ Egypta­lands, og er ferðin liður í und­ir­bún­ingi aðgerða ráðuneyt­is­ins til að aðstoða fólk á Gasa­svæðinu, sem er með dval­ar­leyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Aðrar umsóknir færðust aftar í röðina

„Forgangurinn felst í því að umsóknirnar eru teknar fram fyrir umsóknir um sömu leyfi frá ríkisborgurum annarra ríkja, sem fyrir vikið færðust aftar í röðina,“ segir í svarinu.

Jafnframt er tekið fram að Útlendingastofnun hafi ekki upplýsingar um afstöðu ríkisstjórnarinnar til þessa.

„Þegar stríð braust út á Gasa varð mikill þrýstingur á Útlendingastofnun um að veita Palestínumönnum leyfi til fjölskyldusameiningar hraðar en ella vegna ástandsins á svæðinu. Þeirri stöðu kom Útlendingastofnun á framfæri við dómsmálaráðuneytið í samtölum og var það sameiginleg niðurstaða þeirra samtala að forgangsraða umsóknum Palestínumanna án þess að slá nokkuð af formkröfum samkvæmt útlendingalögum.“

Mótmælandi flaggar palestínska fánanum á styttunni af Kristjáni IX.
Mótmælandi flaggar palestínska fánanum á styttunni af Kristjáni IX. Ljósmynd/Aðsend

Búið að samþykkja 120 umsóknir

Innt eftir því hvernig þessar umsóknir séu metnar og hversu margir hafi fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningarinnar kemur fram að sérfræðingar hjá Útlendingastofnun yfirfari umsóknir og fylgigögn þeirra með tilliti til þess hvort umsækjendur uppfylli skilyrði laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfa.

„Í byrjun október 2023 lágu inni hjá Útlendingastofnun um 150 óafgreiddar umsóknir um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar frá ríkisborgurum Palestínu. Þessar umsóknir bárust á árunum 2022 og 2023. 120 þessara umsókna hafa verið samþykktar síðan þá. Samkvæmt skráningum hjá Útlendingastofnun eru 11 umsækjendanna komnir til landsins og búnir að fá útgefin leyfi,“ segir í svarinu.

Þar kemur einnig fram að þessar upplýsingar nái til Palestínumanna í heild en ekki aðeins til þeirra sem staddir séu á Gasa. 

Þá er einnig tekið fram að töluverður fjöldi umsókna um fjölskyldusameiningarleyfi hafi borist frá ríkisborgurum Palestínu frá því eftir miðjan október. Stór hluti þeirra falli hins vegar ekki undir ákvæði útlendingalaga um fjölskyldusameiningu og njóti þar af leiðandi ekki forgangs við afgreiðslu.

„Átta umsóknir hafa verið samþykktar en enginn þeirra umsækjenda er kominn til landsins samkvæmt skráningum hjá Útlendingastofnun.“

Öllum flett upp fyrir komuna til landsins

Þá segir Útlendingastofnun að öllum sem óski eftir áritun eða dvalarleyfi á Íslandi sé sjálfvirkt flett upp í Schengen-upplýsingakerfinu (Schengen Information System eða SIS) þegar þeir séu skráðir í upplýsingakerfi stofnunarinnar.

„Í SIS er meðal annars skráð þegar einstaklingar eru eftirlýstir á Schengen-svæðinu eða hafa ekki heimild til að koma inn á svæðið. Auk þessa þurfa umsækjendur um dvalarleyfi að leggja fram sakavottorð frá búseturíki. Önnur bakgrunnsrannsókn á sér ekki stað, nema ábendingar eða gögn kalli á slíkt. Í slíkum tilvikum er beiðni send til ríkislögreglustjóra um frekari rannsókn,“ segir í svari stofnunarinnar.

Mótmæli við Alþingishúsið hafa verið ansi tíð undanfarin misseri.
Mótmæli við Alþingishúsið hafa verið ansi tíð undanfarin misseri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reglur um móttökur umsókna ólíkar

Spurð að því hvort önnur lönd byggi á fjölskyldusameiningunni líkt og Ísland segir Útlendingastofnun að reglur um móttöku umsókna geti verið ólíkar.

„Réttur til fjölskyldusameiningar er til staðar í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Reglur um móttöku umsókna eru þó ólíkar. Hér á landi er tekið á móti umsóknum á pappír. Víða annars staðar er sá háttur hins vegar hafður á að fólk þarf að mæta í eigin persónu í sendiráð eða umsóknamiðstöðvar, sem þjónusta erlend ríki, til að leggja fram umsókn um fjölskyldusameiningu,“ segir í svarinu.

Þar er því svo bætt við að eftir að átökin hófust á Gasa og landamærunum var lokað hafi fólk ekki getað lagt fram umsóknir um fjölskyldusameiningu við einstaklinga í ríkjum þar sem þessi háttur er hafður á.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu norsku útlendingastofnunarinnar (UDI) hafa Norðmenn nýlega gert breytingar á reglum um framlagningu umsókna um dvalarleyfi fyrir fólk sem er staðsett á Gasa.

„Áður þurftu einstaklingar á Gasa að mæta í umsóknarmiðstöðvar sem þjónustuðu norska sendiráðið í Amman til að leggja fram umsókn um fjölskyldusameiningu við einstakling sem búsettur er í Noregi. Þar sem fólk getur nú ekki komist frá Gasa til að leggja fram umsókn er ættingjum þeirra, sem staddir eru í Noregi, nú heimilt að leggja fram umsóknir fyrir þeirra hönd,“ segir á heimasíðunni. 

Þar kemur einnig fram að umsóknir um dvalarleyfi frá fólki sem sé statt í Palestínu og Ísrael njóti forgangs. Þetta gildi bæði um umsóknir sem þegar lágu inni hjá stofnuninni þegar átökin á Gasa brutust út sem og um nýjar umsóknir.

Ekki horft til álags á innviði

Þegar Útlendingastofnun er að síðustu spurð hvort Ísland sé að taka á móti fleirum en innviðir okkar ráði við kemur fram að ekki sé horft til innviða við samþykki umsókna.

„Hlutverk Útlendingastofnunar er að meta og afgreiða umsóknir um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd með tilliti til þess hvort umsækjendur uppfylli skilyrði laga fyrir veitingu. Í því mati er ekki horft til áhrifa á innviði. Hröð fólksfjölgun reynir þó á innviði, það gefur augaleið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert