„Brýnt að við beitum okkur frekar til að ná í þetta fólk“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að ríkisstjórnarfundi loknum í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að ríkisstjórnarfundi loknum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Staðan á Rafah eykur auðvitað enn mikilvægi þessa máls,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra innt eftir stöðu mála á dvalarleyfishöfum á Íslandi, sem enn hafa ekki komist út af Gasasvæðinu.

Blaðamaður mbl.is gaf sig á tal við forsætisráðherra að ríkisstjórnarfundi loknum en utanríkisráðherra baðst undan viðtali.  

Katrín segir lista yfir dvalarleyfishafana þegar hafa verið senda á sendiskrifstofur í Egyptalandi og Ísrael og því allt klappað og klárt í þeim málum. Nú þurfi aftur á móti að beita sér frekar svo að fólkið komist til Íslands.

„Að mínu viti er mjög brýnt að við beitum okkur frekar til að ná í þetta fólk, því ég tel þetta vera fordæmalausar aðstæður,“ segir forsætisráðherra að lokum. 

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óbreyttir borgarar koma nú fólki yfir landamærin 

Þrjár íslenskar konur eru nú staddar í Kaíró og hefur þeim þegar tekist að koma einni fjölskyldu yfir landamærin.

Þótti mörgum það skjóta skökku við að þrír óbreyttir borgarar gætu áorkað slíkt á skömmum tíma í ljósi þess að ríkisstjórnin og utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, hafi ítrekað lýst aðgerðinni sem flókinni. 

Bjarni sagði umsóknir Palestínumanna settar í forgang

Bjarni sat fyrir svörum hjá Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur í fréttatíma RÚV á þriðjudaginn og gat þar ekki gefið skýr svör um hvort ráðuneytið hygðist sækja fólkið en sagði málið til skoðunar. 

Benti hann ítrekað á að útlendingamál væru komin í óefni hér á landi og að Ísland gæti ekki tekið endalaust við fólki. Minnti Jóhanna Vigdís hann þá á að fólkið sem um ræddi hefði þegar fengið samþykkt dvalarleyfi hér á landi.

Þess má geta að Bjarni lýsti því yfir í desember að umsóknir um fjölskyldusameiningar Palestínumanna hér á landi yrðu settar í forgang hjá Útlendingastofnun í ljósi ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs.

Fréttin hefur verið uppfærð.

María Lilja, Kristín og Bergþóra hafast nú við að koma …
María Lilja, Kristín og Bergþóra hafast nú við að koma palestínskum fjölskyldum, sem fengið hafa dvalarleyfi á Íslandi, út af Gasasvæðinu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka