„Minn tími er ekki búinn“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. mbl.is/Óttar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, sagði á fundi sjálfstæðismanna í dag að fréttir af pólitísku andláti hans hafi verið stórlega ýktar. Mikilvægasta verkefni flokksins væri að „taka stjórn á landamærum Íslands“.

Á þriðju­dag­inn tók Bjarni við embætti for­sæt­is­ráðherra af Katrínu Jak­obs­dótt­ur. Degi síðar boðaði hann sjálfstæðismenn til fundar sem var haldinn í hádeginu í dag.

Ráðherrar og ráðamenn innan flokksins héldu stuttar ræður áður en Bjarni sjálfur steig á svið við standandi lófatak áhorfenda á Nordica. 

Hann sagði sannarlega vera tilefni til þess að koma saman og fagna tímamótunum. Fór hann yfir víðan völl í ræðu sinni en sagði hvergi betra að búa en á Íslandi.

Auðveldara að standa á hliðarlínunni

Hann sakaði stjórnarandstöðuna og aðra um ómálefnalega gagnrýni og sagði nóg til af sjálfskipuðum sérfræðingum um málefni Sjálfstæðisflokksins.

„Ég fæ alveg minn skammt frá þessum sérfræðingum en ég reyni að láta þá ekki trufla mig. Ég held að ég sé orðinn nokkuð góður í því. Eigum við ekki að segja að minnsta kosti að sögur af pólitísku andláti mínu hafi verið stórlega ýktar,“ sagði Bjarni.

„Í gegnum öll þessi ár og öll þessi mál, hefur alltaf verið einhver rödd innra með mér sem hefur sagt: „Minn tími er ekki búinn“.“

Hann sagði einnig það vera mikið auðveldara að standa á hliðarlínunni og gagnrýna ráðamenn „án þess að bera ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut“.

Fundurinn var vel sóttur og uppskar Bjarni standandi lófatak er …
Fundurinn var vel sóttur og uppskar Bjarni standandi lófatak er hann steig í pontu. mbl.is/Óttar

Útlendingamál í brennidepli

Bjarni sagði í ræðu sinni að áhersla væri lögð á ákveðin aðalatriði hjá flokknum innan ríkisstjórnarinnar það sem eftir er af kjörtímabilinu. Nefndi hann þar útlendingamál, verðbólgu og orkumál.

„Við verðum að taka stjórn á landamærum Íslands, það er númer eitt. Við ætlum áfram að ná árangri við að lækka verðbólguna. Við þurfum að fá vexti niður og það er líklegt að við náum góðum árangri á þessu ári,“ sagði hann.

„Fólk sem hefur fengið hér tímabundið dvalarleyfi en gerist sekt um að brjóta af sér ítrekað eða jafnvel með mjög alvarlegum hætti, það fyrirgerir rétti sínum á að búa á Íslandi. Það var jú með tímabundið leyfi. Þegar kemur að því að fá varanlegt dvalarleyfi eða jafnvel ríkisborgararétt, þá setjum við kröfur,“ sagði forsætisráðherrann meðal annars.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra ræddi einnig málefni hælisleitenda í ræðu sinni. Hún sagði meðal annars að umsóknum um alþjóðlega vernd hafi fjölgað um 3700% á rúmum áratug. Þá sagði hún aðeins Sjálfstæðisflokkinn vinna gegn þessari þróun. 

Fækka ríkisstofnunum um helming

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ræddi meðal annars í sinni ræðu hagræðingar í ríkisrekstri án þess að hækka eða lækka skatta.

„Við þurfum ekki nýjar stofnanir, við þurfum að fækka þeim um að minnsta kosti helming,“ sagði Þórdís Kolbrún án þess að fara nánar út í það.

Hún sagði að ekki væri þörf fyrir ríkisvætt tryggingarfélag, en hins vegar þurfi ríkið að selja banka.

mbl.is/Óttar

Taka slaginn

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, lagði áherslu á að sjálfstæðismenn þyrftu nú að standa saman og styðja við formanninn, en nú væri sótt að honum.

„Þá stöndum við saman og tökum slaginn!“ sagði Guðlaugur Þór og uppskar lófatak við það.

Verða að ná betur til þjóðarinnar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði meðal annars í sinni ræðu að ekki væri alltaf hægt að stjórna atburðarrásinni í pólitíkinni.

„Við verðum að ná miklu betur til þjóðarinnar. Við gerum það með því að stækka og efla Sjálfstæðisflokkinn,“ sagði hún einnig.

Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins, lagði einnig áherslu á að flokkurinn þyrfti að standa saman.

Ef vel myndi takast og flokkurinn fengi aukið fylgi þá væri hægt að komast hjá því að mynda þriggja flokka ríkisstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert