Myndskeið: Stóð í ljósum logum í Gnoðarvogi

Eldur kviknaði í sendiferðabíl í Gnoðarvoginum fyrr í kvöld. Sendiferðabíllinn stóð í ljósum logum og eldurinn komst í snertingu við bifreið sem stóð þar fyrir aftan. 

„Þetta var rosalegur hvellur sem kom hérna fyrst,“ segir Anna Sigríður Garðardóttir, íbúi í Gnoðarvoginum, í samtali við mbl.is.

Annar bíllinn á innan við viku 

Anna segir að þeim hafi þótt heldur sérstakt að það skuli kvikna í enn öðrum bílnum í Gnoðarvoginum og vísar til bifreiðar sem kviknaði í í Gnoðarvogi þann 30. mars.

Kveðst hún hafa heyrt nokkra hvelli og farið svo út til þess að kanna málin nánar og náði myndbandinu sem fylgir hér að ofan.

Segir hún íbúana hafa verið óttaslegna yfir eldinum enda hann komið upp nærri íbúðarhúsi. Óttast var að eldurinn myndi ná til hússins. 

„Okkur fannst slökkvilið svolítið lengi á leiðinni, en þeir eru algjörlega búnir að ná tökum á þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert