Hafa þrjá daga til að smala

Fjölmennt var á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Mývatnssveit í dag.
Fjölmennt var á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Mývatnssveit í dag. Ljósmynd/Karl Eskil Pálsson

Frambjóðendur sem boðið hafa sig fram á lista Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi hafa þrjá daga til að smala nýjum félögum í flokkinn, en kjörskrá vegna kjördæmisþings, sem kýs á milli frambjóðenda, verður lokað 1. nóvember.

Á kjördæmisþingi sem fram fór í Mývatnssveit var samþykkt með 115 atkvæðum að ákveða framboðslistann á tvöföldu kjördæmisþingi. 48 sem greiddu atkvæði vildu efna til lokaðs prófkjörs meðal félagsmanna í Framsóknarflokknum.

Áður en þinginu lauk var tekin ákvörðun um hvenær kosið yrði á kjördæmisþingi. Tvær dagsetningar komu til greina, 24. nóvember og 1. desember. Niðurstaðan varð sú að boða til tvöfalds kjördæmisþings 1. desember.

Samkvæmt reglum flokksins senda flokksfélögin fulltrúa á kjördæmisþing miðað við fjölda félagsmanna 30 dögum fyrir kjördæmisþing. Hvert félag sendi einn fulltrúa fyrir hverja fimm félagsmenn. Ef kjördæmisþingið hefði verið haldið 24. nóvember hefði fjöldi fulltrúa miðast við fjölda félagsmanna eins og hann var 24. október. En þar sem ákveðið var að halda þingið 1. desember hafa frambjóðendur tækifæri til að safna nýjum félögum í framsóknarfélögin í kjördæminu og þannig hafa áhrif á hversu margir sækja þingið. Fjöldi fulltrúa á kjördæmisþinginu mun miðast við fjölda félagsmanna eins og hann verður 1. nóvember. Boða þarf til funda í félögunum til að samþykkja fulltrúa á kjördæmisþingið.

Ekki hefur náðst í Höskuld Þórhallsson alþingismann í dag, en Vikudagur hafði eftir honum fyrr í dag að hann hefði heldur viljað hafa prófkjör. Það væri lýðræðislegri leið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert