Kosið verður 27. apríl

Innanríkisráðuneytið mun síðar í dag birta auglýsingu þar sem fram kemur að kosið verður til Alþingis 27. apríl næstkomandi. Kosning utan kjörfundar mun hefjast svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur.

Samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis skal innanríkisráðuneytið auglýsa hvenær almennar reglulegar alþingiskosningar skuli fara fram. Síðustu alþingiskosningar voru haldnar 25. apríl 2009. Þetta þýðir að almennar reglulegar alþingiskosningar skulu fara fram 27. apríl 2013. Verði Alþingi rofið fyrr ákveður forseti Íslands kjördag.

„Innanríkisráðuneytið mun síðar í dag auglýsa kjördag miðað við 27. apríl 2013 því samkvæmt 57. gr. laga um kosningar til Alþingis skal kosning utan kjörfundar hefjast svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur, þó eigi fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Kosning utan kjörfundar gæti þá hafist hér á landi og erlendis 2. mars 2013 eins og lög bjóða,“ segir í minnisblaði sem innanríkisráðherra lagði fram á ríkisstjórnarfundi í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert