Framsókn ekki stærri síðan 1996

Framsóknarflokkurinn nýtur 22% fylgis í nýrri skoðanakönnun Gallups og hefur ekki mælst með jafnmikið fylgi síðan 1996. Verði þetta niðurstöður Alþingiskosninganna, getur Sjálfstæðisflokkurinn myndað tveggja flokka stjórn með Framsóknarflokki eða Bjartri framtíð eftir kosningar.

Greint  var frá niðurstöðum skoðanakönnunarinnar í útvarpsfréttum RÚV í kvöld.

Fylgi Framsóknar mælist nú 8% meira en fyrir mánuði. Flokkurinn fengi 16 menn á þing ef þetta verða úrslit kosninga.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur minnkað nokkuð frá síðustu könnun, hann fengi 30%  og 21 mann á þing miðað við könnuna nú, en var með 36% fyrir mánuði.

Björt framtíð mælist nú með 16% fylgi og hefur það minnkað um 3% frá síðustu könnun. Flokkurinn fengi 11 menn á þing.

Verði þetta niðurstöður kosninganna eru möguleikar á tveimur tveggja flokka ríkisstjórnarmynstrum; Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eða Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð.

Fylgi við ríkisstjórnarflokkana heldur áfram að minnka.

Samfylkingin mælist nú með 15% fylgi og fengi 10 menn kjörna og Vinstri græn fá 7% fylgi og fengju 5 menn kjörna.

Þetta er helmingur þess fylgis sem þessir flokkar fengu í síðustu kosningum.

Aðrir flokkar ná ekki manni á þing miðað við núverandi fylgi og er fylgi þeirra samanlagt um 8%.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert