Dugar fyrir skuldaleiðréttingu og meiru til

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist sannfærður um það að hægt verði að semja við kröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna með þeim hætti að hægt verði að greiða niður höfuðstól húsnæðislána langflestra skuldara og meira til.

Þetta sagði Sigmundur í viðtali á Sprengisandi í Bylgjunni í morgun. Spurður hvort þessir peningar lægju á lausu sagði hann að enn ætti eftir að semja við kröfuhafana. Hins vegar vildu kröfuhafarnir semja, hvatinn og ákafinn kæmi frá þeim.

Möguleiki sé á því fyrir ríkið að semja um hagstæða niðurstöðu og fyrir kröfuhafana að fara héðan með umtalsverðan hagnað. Til þess hafi ríkið réttu tækin.

Afgangurinn muni nægja til að standa undir skuldaleiðréttingu og meiru til.

Spurður hvort allir eigi von á skuldaleiðréttingu, komist Framsókn til valda, sagði Sigmundur Davíð að á fjórum árum eða frá því að hugmyndirnar voru fyrst kynntar, hefði ýmislegt breyst. 

Hann sagðist hins vegar sannfærður um að flestir skuldarar fengju leiðréttingu. „Ef málum er ekki klúðrað. Engin ástæða er til þess að ætla að menn klúðri málum ef ekkert er gert í fljótfærni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert