Útilokar ekki samstarf við VG

Bjarni Benediktsson ræðir við fjölmiðla eftir fundinn með forseta Íslands …
Bjarni Benediktsson ræðir við fjölmiðla eftir fundinn með forseta Íslands á Bessastöðum í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég átti bara gott spjall við forsetann. Við ræddum niðurstöður kosninganna og þá stöðu að hér þurfi fleiri en tvo flokka. Og þetta var bara uppbyggilegt og ágætis byrjun á því að vinna úr niðurstöðum kosninganna,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, eftir fund með Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, á Bessastöðum í morgun.

Spurður hvort hann hefði fengið stjórnarmyndunarumboðið á fundinum sagði Bjarni að svo hefði ekki verið enda aldrei staðið til. „Við þurfum að gefa forsetanum svigrúm til þess að hitta aðra flokka og melta það sem hann heyrir frá mér og öðrum.“ Bjarni sagði í morgun þegar hann mætti til fundarins að hann ætti von á að fá umboðið. Sagðist hann aðspurður eftir fundinn hafa tjáð Guðna þá skoðun sína að hann teldi að Sjálfstæðisflokkurinn gæti verið kjölfestan í nýrri þriggja, eða eftir atvikum fjögurra, flokka ríkisstjórn.

„Það eru margir kostir í stöðunni,“ sagði Bjarni. Myndun ríkisstjórnar væri ekki eins óyfirstíganleg og sumir hefðu viljað meina. Spurður um framhaldið sagðist hann væntanlega heyra frá forsetanum á morgun eða hinn daginn hvað hann ætlaði að gera. Spurður hvort hann ætlaði að heyra í öðrum formönnum í dag sagði hann að ekki þyrfti að koma á óvart að hann héldi væntanlega áfram að ræða við aðra flokka á næstunni.

Spurður um mögulegt samstarf við Vinstrihreyfinguna - grænt framboð sagðist hann ekki ætla að útiloka neitt í þeim efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert