Líst betur á VG og Sjálfstæðisflokkinn

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert

„Ríkisstjórn með Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum er ekki neitt sérstaklega spennandi kostur. Það er ansi langt á milli okkar og Sjálfstæðisflokksins í mjög mörgum málum fyrir utan hvað það væri þröngur meirihluti,“ sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, við fréttavef Stundarinnar í dag um möguleikann á 32 þingmanna stjórn þessara flokka en 63 þingmenn sitja á þingi.

Miðað við það sem á undan hefði gengið þyrfti mikið að koma til svo einhver möguleiki væri á því að þessir stjórnmálaflokkar næðu saman málefnaklega. Óttarr var einnig spurður hver væri hans óskaríkisstjórn. Sagði hann erfitt að segja til um það enda staðan mjög þröng. Samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Vinstrihreyfinguna - grænt framboð kæmi frekar til greina eða samstarf stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra auk Viðreisnar.

„Við höfum talað fyrir því að við myndum gjarnan vilja sjá einhvern vísi að samstarfi yfir miðjuna, hvort það væri þetta fimm flokka módel eða módel þar sem bæði Sjálfstæðisflokkurinn og VG kæmi að. Eins og ég segi þá er erfitt að segja til um það en það færi í raun og veru eftir því hvaða áherslur og málefni menn geta náð saman um,“ sagði hann ennfremur.

Samfylkingin hyggst ekki gefa kost á sér í ríkisstjórn og Píratar hafa sagt að fimm flokka stjórn þýddi hátt flækjustig. Fyrir vikið hafa Píratar lagt til minnihlutastjórn VG, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem varin yrði af Pírötum og Samfylkingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert