Nýir þingflokkar koma saman á morgun

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýir þingflokkar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins munu ekki koma saman í dag. Þingflokkur Vinstri grænna fundar aftur á móti í dag. 

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður og þingflokksformaður flokksins á síðasta þingi, segir í samtali við mbl.is að á morgun verði staðan rædd innan Sjálfstæðisflokksins. 

„Nýi þingflokkurinn kemur saman í fyrramálið. Það hafa ekki verið skipulagðir neinir þingflokksfundir í dag. Það verður til að ræða almennt kosningaúrslitin og þá möguleika sem eru fyrir hendi,“ segir Birgir og bætir við;

„Ég geri ráð fyrir að formenn stjórnarflokkana heyrist eitthvað en að sama skapi eru menn bara að jafna sig aðeins eftir spennandi kosningar.“

„Skila­boðin eru býsna sterk

Það var að vonum gott hljóðið í Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, þegar blaðamaður náði af honum tali í dag. 

Sigurður segir viðbúið að nýr þingflokkur komi saman á morgun;

„Við ætlum að fagna og gleðjast og hvílast í dag en við reiknum með að koma saman á morgun.“

Sigurður segist þó hafa rætt við alla þingmenn flokksins einslega;

„Ég er búin að tala við alla þingmenn, nýja sem gamla, og fara yfir stöðuna.“

Spurður hvernig stjórnarmyndunarviðræður blasi við sér segir Sigurður;

„Oddvitar núverandi ríkisstjórnar munu setjast niður, það var það sem við sögðum fyrir kosningar og munum standa við. Við munum gera það næstu daga og taka það samtal, enda eru skilaboðin úr þessum kosningum þannig að þessir þrír flokkar hafa starfað saman í ríkisstjórn og að þessir þrír flokkar njóti mest traust almennings.

„Skilaboðin eru býsna sterk um að fólk vilji það að við látum á það reyna að halda áfram samstarfi en auðvitað þá á nýjum grunni og það er það sem við munum kanna næstu daga.“

Spurður hvort að hann muni fara fram á forsætisráðherrastólinn segir Sigurður;

„Við munum fyrst og fremst nálgast þessar umræður út frá þessum málefnum sem við höfum verið með en ekki vera að setja persónur og embætti þar fremst í forgrunn. Við höfum unnið þétt saman í fjögur ár og þekkjum hvort annað ágætlega og treystum okkur alveg til að taka það samtal síðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert