Juno sækir Júpíter heim

Júpíter og Galíleotunglin fjögur eins og þau komu fyrir sjónir …
Júpíter og Galíleotunglin fjögur eins og þau komu fyrir sjónir Juno úr 10,9 milljón kílómetra fjarlægð 21. júní. NASA/JPL-Caltech/SwRI/MSSS

Gasrisinn Júpíter á von á agnarsmáum gesti frá plánetunni jörð á mánudaginn þegar bandaríska geimfarið Juno kemst á braut um reikistjörnuna. Juno, sem er nefnt eftir konu Júpíters í rómverskri goðafræði, er ætlað að skyggnast undir skýjahulu plánetunnar og afhjúpa leyndarmál hennar. 

Eftir fimm ára og tæplega þriggja milljarða kílómetra ferðalag í gegnum sólkerfið á Juno að komast á braut um Júpíter á mánudag. Hafi allt gengið að óskum á merki frá geimfarinu að berast til jarðar kl. 16:53 að íslenskum tíma.

Áður þarf að ræsa aðalhreyfil Juno til að hægja á könnunarfarinu um rúmlega 1.900 km/klst til að Júpíter geti „gripið“ það með þyngdarkrafti sínum. Það tekur útvarpsmerki heilar 48 mínútur að ferðast á milli geimfarsins og stjórnstöðvar NASA í Kaliforníu jafnvel þó að það ferðist á hraða ljóssins. Ef eitthvað fer úrskeiðis við brunann verður því ekkert sem nokkur getur gert til að bjarga því.

Líkan af geimfarinu Juno í höfuðstöðvum Jet Propulsion Lab NASA …
Líkan af geimfarinu Juno í höfuðstöðvum Jet Propulsion Lab NASA í Pasdena í Kaliforníu. AFP

Finna uppskriftina að sólkerfum

Að því gefnu að allt gangi eftir mun Juno ganga 37 hringi á braut um Júpíter yfir norður- og suðurpól reikistjörnunnar næstu tuttugu mánuðina. Brautin verður afar sporöskjulaga. Fjærsti punktur sporbrautarinnar færir Juno rúmlega þrjár milljónir kílómetra frá reikistjörnunni en næst fer það í rétt tæplega 5.000 kílómetra fjarlægð frá yfirborðinu.

„Eitt aðalmarkmið Juno er að komast að uppskriftinni að sólkerfum. Hvernig býr maður til sólkerfi? Hvernig býr maður til reikistjörnunnar í sólkerfinu okkar?“ segir Scott Bolton, aðalvísindamaður leiðangursins.

Á meðal þess sem geimfarið, sem verður það fyrsta til að vera braut um Júpíter í átta ár, á að kanna er hversu djúpt stóri rauði bletturinn, helsta einkenni reikistjörnunnar, nær niður í lofthjúpinn og hvernig innviðir hennar eru.

„Við vitum raunverulega ekki hvort það sé kjarni í miðju Júpíters. Ef hann er til staðar segir það okkur svolítið hvenær, hvernig og örlítið um hvar Júpíter hlýtur að hafa myndast,“ segir Scott Bolton, aðalvísindamaður Juno-leiðangursins.

Þá á Juno að gera athuganir á gríðarlega öflugu segulsviði þessarar langstærstu reikistjörnu sólkerfisins og eins er farið búið innrauðri myndavél til að rannsaka segulljós í kringum pólana.

Hefðbundin myndavél er einnig um borð í Juno og gefst almenningi kostur á að senda tillögur að því hvert skuli beina henni.

Umfjöllun New York Times um Juno-leiðangurinn

Grein á Stjörnufræðivefnum um Juno

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert