Fyrsta myndin af braut um Júpíter

Mynd Juno af Júpíter. Föli bletturinn næst honum er tunglið …
Mynd Juno af Júpíter. Föli bletturinn næst honum er tunglið Íó en hinir tveir fjarlægari eru Evrópa og Ganýmedes. ljósmynd/NASA/JPL-Caltech/SwRI/MSSS

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hefur birt fyrstu myndina af Júpíter og tunglum hans frá því að geimfarið Juno komst á braut um reikistjörnuna í síðustu viku. Enn eru þó nokkrar vikur í að fyrstu háskerpumyndirnar af gasrisanum komi í hús.

Juno er á afar sporöskjulaga braut um Júpíter og stefnir nú frá reikistjörnunni. Kveikt var á JunoCam, myndavél geimfarsins sem tekur myndir í sýnilegu ljósi, sex dögum eftir að kveikt var á vél þess til að koma því á braut. Þegar Juno nálgast Júpíter aftur í ágúst gefst betra tækifæri til að taka myndir.

Leiðangursstjórarnir eru nú að kveikja á mælitækjum geimfarins til að kanna ástand þeirra. Gríðarleg geislun stafar frá Júpíter og eru tækin varin með títaníumbrynju. Þrátt fyrir það gera verkfræðingar leiðangursins ráð fyrir að mörg þeirra stikni áður en honum lýkur eftir tuttugu mánuði.

„Þessi svipmynd frá JunoCam bendir til þess að hún hafi lifað af fyrstu ferðina í gegnum öfgakennt geislaumhverfi Júpíters án þess að hrörna og að hún sé tilbúin til að takast á við Júpíter. Við getum ekki beðið eftir því að sjá fyrstu myndirnar af pólum Júpíters,“ segir Scott Bolton, aðalvísindamaður leiðangursins.

Myndin sem nú hefur verið birt var tekin 10. júlí þegar geimfarið var í um 4,3 milljóna kílómetra fjarlægð frá reikistjörnunni. Allar myndir sem teknar verða með JunoCam verða aðgengilegar almenningi á vefsíðu leiðangursins, að því er kemur fram í frétt á vef NASA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert