Fyrstu nánu kynnin við Júpíter

Myndir sem Juno tók af Júpíter úr 4,4 milljóna kílómetra …
Myndir sem Juno tók af Júpíter úr 4,4 milljóna kílómetra fjarlægð 23. ágúst. Sú vinstra megin er samsett litmynd en sú hægra megin var tekin í gegnum innrauða síu JunoCam. NASA/JPL-Caltech/SwRI/MSSS

Bandaríska geimfarið Juno kemst í sín fyrstu nánu kynni við reikistjörnuna Júpíter í dag. Ekkert geimfar hefur hætt sér eins nærri gasrisanum í meginhluta leiðangurs síns. Nærflugið á að skila skörpustu myndum sem teknar hafa verið af skýjum Júpíters.

Juno komst á braut um Júpíter 5. júlí eftir fimm ára ferðalag og er nú á afar sporöskjulaga sporbraut um reikistjörnuna. Þegar Juno verður sem næst Júpíter í dag verða aðeins um 4.200 kílómetrar á milli geimfarsins og lofthjúps reikistjörnunnar. Ekkert geimfar hefur farið svo nærri Júpíter síðan bundinn var endir á leiðangur geimfarsins Galíleó með því að steypa því ofan í lofthjúpinn árið 2003.

Næst verður geimfarið Júpíter kl. 12:51 að íslenskum tíma en þá verður Juno á um 208.000 kílómetra hraða á klukkustund. Við aðflugið í júlí var slökkt á myndavél og mælitækjum geimfarsins en nú mun svonefnd JunoCam fylgjast með hverju augnabliki nærflugsins og öll mælitæki í gangi.

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA gerir ráð fyrir að hægt verði að birta fyrstu nærmyndirnar frá nærfluginu eftir nokkra daga. Aldrei hafa verið teknar myndir í eins hárri upplausn af reikistjörnunni áður. 

Frétt BBC af nærflugi Juno í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert