Júpíter í nærmynd

Fyrsta nærmyndin sem birt hefur verið frá fyrsta flugi Juno …
Fyrsta nærmyndin sem birt hefur verið frá fyrsta flugi Juno fram hjá Júpíter. Hún sýnir norðurskaut reikistjörnunnar úr um 703.000 km fjarlægð. AFP

Allt gekk að óskum í fyrsta flugi geimfarsins Juno fram hjá Júpíter í gær. Framhjáflugið var það fyrsta af 36 sem áætluð eru meðan á leiðangri Juno stendur. NASA hefur birt fyrstu nærmyndina af gasrisanum en búast má við fleiri myndum á næstu dögum.

Juno kom fyrst að Júpíter í byrjun júlí og var þá komið á afar sporöskjulaga braut um reikistjörnuna. Sporbrautin færði Juno nær gasrisanum í gær en geimfarið mun verða það sem eftir er leiðangursins. Þegar það var næst voru aðeins 4.200 kílómetrar á milli Juno og efsta skýjalags Júpíters. Þá var Juno á á rúmlega 200.000 km/klst. hraða.

Þetta var jafnframt í fyrsta skipti sem Juno var með kveikt á öllum mælitækjum og myndavélum þegar geimfarið þeyttist fram hjá Júpíter. Scott Bolton, aðalvísindamaður leiðangursins, segir að áhugaverð gögn séu þegar tekin að berast til jarðar. Það tekur hins vegar nokkra daga til viðbótar að ná í öll gögnin frá framhjáfluginu og enn lengri tíma fyrir vísindamennina að ráða í þau.

Engu að síður er gert ráð fyrir að birtar verði nokkrar háskerpumyndir úr JunoCam-myndavélinni sem tók myndir í sýnilegu ljósi frá framhjáfluginu á næstu vikum. Það verða skörpustu myndir sem teknar hafa verið af lofthjúpi Júpíters og þær fyrstu af norður- og suðurpóli reikistjörnunnar.

„Við erum á sporbraut sem enginn hefur verið á áður og þessar myndir gefa okkur glænýtt sjónarhorn á þennan gasrisa,“ segir Bolton í frétt á vefsíðu NASA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert