Mætt til að njósna um eiginmanninn

Eftir vel heppnað aðflug að Júpíter tekur við nokkur bið þar til rannsóknir bandaríska könnunarfarsins Juno hefjast fyrir alvöru. Gárungarnir segja leiðangurinn lokahnykk 400 ára gamals brandara þar sem Juno kemur til að njósna um eiginmann sinn Júpíter úr rómversku goðafræðinni.  

Fögnuður vísindamanna og verkfræðinga bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA var fölskvalaus þegar staðfest var að Juno hefði komist á braut um gasrisann í nótt. Ekkert mátti út af bregða í aðgerðunum sem til þurfti. Ræsa þurfti aðalvél geimfarins til að hægja á því og svo slökkva á henni á hárréttum tíma til að Júpíter gripi það með þyngdarkrafti sínum.

Björninn er hins vegar ekki unninn enn þá því gríðarleg geislunin sem stafar frá Júpíter grillar smám saman mælitækin um borð. Reiknað hefur verið út að geimfarið hafi orðið fyrir geislun sem jafngildir um það bil milljón skömmtum frá tannröntgenmyndum meðan á aðfluginu stóð, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Til að verjast geisluninni eru viðkvæm mælitækin um borð varin með títaníumbrynju. Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að myndavélar geimfarsins eigi eftir að hrörna hratt á braut um gasrisann og að sum mælitækjanna verði löngu ónýt áður en leiðangrinum lýkur formlega.

Rannsóknirnar hefjast í haust

Ekkert geimfar hefur enda áður hætt sér nær Júpíter en Juno sem hefur ekki beinlínis verið í sjálfseyðingarleiðangri. Könnunarfarið Galileo steypti sér sjálft niður í hyldýpi lofthjúps reikistjörnunnar við lok leiðangurs síns árið 2003. Það var gert til að eyða hættunni á að það brotlenti á tunglum Júpíters sem mögulegt er talið að geti hýst líf og „sýkti“ þau með bakteríum frá jörðinni. Juno mun hljóta sömu örlög eftir um tuttugu mánuði.

Þegar Juno kemst næst Júpíter á braut sinni verður geimfarið aðeins í rétt rúmlega 5.000 kílómetra fjarlægð frá lofthjúpnum. Til samanburðar eru að meðaltali um 382.000 kílómetrar á milli jarðarinnar og tunglsins.

Frétt mbl.is: Juno sækir Júpíter heim

Sporbrautin sem Juno er nú komin inn á er afar sporöskjulaga og tekur það geimfarið 53 jarðneska daga að fara einn hring um Júpíter eftir henni. Vélin verður hins vegar ræst aftur um miðjan október og Juno færð á braut nær reikistjörnunni sem tekur aðeins fjórtán daga. Það er fyrst þá sem vísindarannsóknirnar hefjast af alvöru.

Líkan af sólarknúna könnunarfarinu Juno sem komst á braut um …
Líkan af sólarknúna könnunarfarinu Juno sem komst á braut um Júpíter í nótt. AFP

Fyrstu myndirnar væntanlegar í ágúst

Mælitæki Juno koma til með að skyggnast undir skýjahuluna og mæla hita, efnasamsetningu, hreyfingar og aðra eiginleika hennar. Efnasamsetningin er ekki síst mikilvæg því vísindamönnunum leikur forvitni á að vita hvar Júpíter myndaðist í sólkerfinu.

„Við teljum að Júpíter hafi mögulega ekki myndast þar sem hann er í dag og það hvort að hann myndaðist fjær eða nær segir okkur mikið um hvernig sólkerfi myndast almennt. Því þegar við lítum á reikistjörnur á braut um aðrar stjörnur sjáum við heilan dýragarð möguleika,“ segir Candy Hansen, einn liðsmanna Juno-teymisins, við BBC.

Frétt mbl.is: Juno á braut um Júpíter

Önnur spurning sem Juno á að leita svara við er hvort í hjarta reikistjörnunnar leynist fastur kjarni eða hvort gasið sem myndar hana nái alla leiðina inn í miðju í sífellt þéttara ástandi. Kenningar eru um að vetnið sem er aðaluppistöðuefni Júpíters myndi rafleiðandi málmkenndan vökva sem aftur knýi feikiöflugt segulsvið gasrisans. 

Í frétt The Guardian kemur fram að fyrstu nærmyndir Juno af Júpíter séu líklega ekki væntanlegar fyrr en seint í ágúst þegar geimfarið nálgast yfirborðið með kveikt á myndavélunum.

Frá leiðangursstjórnstöðinni í Jet Propulsion Lab NASA í Pasadena í …
Frá leiðangursstjórnstöðinni í Jet Propulsion Lab NASA í Pasadena í Kaliforníu. AFP

400 ára gamall brandari fær niðurlag

Juno er nefnt eftir eiginkonu Júpíters, æðsta guðsins í rómverskri goðafræði. Gárungarnir á óravíddum alnetsins hafa í dag gert því skóna að með komu geimfarsins séu vísindamenn að binda endahnútinn á brandara sem hófst fyrir fjórum öldum þegar menn byrjuðu að finna tungl reikistjörnunnar.

Mörg tungl Júpíters eru nefnd eftir hjákonum Júpíters sem var heldur lausgyrtur. Hann var meðal annars sagður hafa sveipað sig skýjum til að fela lausaleikinn fyrir Juno en hún hafi hins vegar haft þann hæfileika að horfa í gegnum þau.

Nú sé brandarinn fullkomnaður þegar geimfarið Juno mætir á svæðið og skyggnist undir ský Júpíters þar sem hann situr umkringdur hjákonum sínum. 

Umfjöllun BBC um Juno-leiðangurinn

Umfjöllun The Guardian

Grein á Stjörnufræðivefnum um Júpíter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert