Syndsamlega góð súkkulaðimús Chrissy Teigen

mbl.is/Cravings

Aðdáun okkar hér á Matarvefnum á Chrissy Teigen er ekkert launungamál enda er hún með afbrigðum flink að elda og með skemmtilegri konum.

Hér gefur að líta uppskrift hennar að súkkulaðimús sem inniheldur einungis þrjú hráefni. Uppskriftin er úr bókinni Cravings sem er frekar frábær bók þótt ég segi sjálf frá.

Súkkulaðimús Chrissy Teigen

  • 170 g gott súkkulaði, saxað
  • 80 ml nýmjólk
  • 180 ml rjómi, kaldur

Mylsnan

  • Olía, til steikingar
  • 2/3 bolli sykur
  • 2 msk. vatn
  • 4 msk síróp
  • ⅛ tsk. matarsódi
  • ¼ tsk. sjálvarsalt, auka til skreytingar
  • 1 bolli Rice Krispies
  • ⅓ bolli saxaðar heslihnetur
Til að bera fram:
  • 120 ml rjómi, kaldur
  • 1 msk. sykur
Aðferð:
Blandið saman súkkulaði og mjólk í stóra skál sem þolir örbylgjuofn. Setjið í örbylgjuofninn í 1 mínútu og 15 sekúndur. Takið út og hrærið saman uns súkkulaðið hefur blandast saman við mjólkina að fullu. Leggið til hliðar og látið kólna í 15 mínútur.
Þegar súkkulaðið hefur kólnað skal þeyta rjómann uns stífþeyttur. Blandið rjómanum varlega saman við súkkulaðið (sem á nú að hafa kólnað) og gætið þess að hræra ekki of mikið eða músin mun falla. Deilið blöndunni í fjórar skálar eða glös sem þið ætlið að bera réttinn fram í. Setjið í kæliskáp og kælið í 2-24 klukkustundir.

Setjið smjörpappír í ofnskúffu og smyrjið létt með olíu. Setjið sykur, vatn og síróp í lítinn pott og látið suðuna koma upp. Látið malla og hrærið reglulega í uns blandan verður karamellubrún eða í 5 mínútur frá því suðan kom upp.

Takið pottinn af hellunni og hrærið matarsóda og salti saman við. Síðan skal blanda Rice Krispies saman við og hnetunum. Vinnið hratt en mjúklega þar sem blandan harðnar hratt. Setjið blönduna á smjörpappírinn, dreifið vel úr henni og sáldrið sjávarsalti yfir. Látið harðna og brjótið svo niður í bita.

Til að bera fram:

Þeytið rjómann með sykrinum vel og setjið ofan á músina í hverju glasi og sáldrið síðan mylsnunni yfir. Berið fram.
 
Chrissy Teigen er mikill ástríðukokkur.
Chrissy Teigen er mikill ástríðukokkur. mbl.is/
mbl.is/Cravings
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert