Rýma heila borg vegna bruna

Þykkan reyk leggur af eldinum sem ógnar Fort McMurray í …
Þykkan reyk leggur af eldinum sem ógnar Fort McMurray í Alberta-ríki. AFP

Öllum íbúum borgarinnar Fort McMurray í Alberta-ríki í Kanada hefur verið skipað að yfirgefa hana vegna bruna sem embættismenn segja hafa jafnað heilu hverfin við jörðu. Engar fréttir hafa borist af mannskaða en borgaryfirvöld hafa óskað eftir aðstoð hersins.

Fort McMurray liggur í hjarta tjörusandssvæða Kanada en þar er að finna þriðju stærstu olíulindir jarðar á eftir Sádí-Arabíu og Venesúela. Flestar olíuvinnslustöðvarnar eru vel norðan við borgina og bruninn er vestur í henni sunnanverðri.

Slökkviliðsstjóri borgarinnar segist ekki hafa tölu á hversu mörg hús hafi eyðilagst í eldinum fram að þessu en hann logar á nokkrum svæðum í suðurendanum. Hjólhýsahverfi þar varð eldinum meðal annars að bráð.

Eldurinn kviknaði á sunnudag en svo virtist sem að slökkvilið væri að ná tökum á honum í gær. Hann varð slökkviliðsmönnum hins vegar ofviða þegar vindáttin breyttist skyndilega síðdegis. Logarnir breiddust hratt út og teygðu sig í átt að borginni. Því var tekin ákvörðun um að skipa fleiri en 80.000 að forða sér.

Aðeins einn vegur liggur frá Fort McMurray og greip nokkur skelfing um sig hjá íbúunum því logarnir umkringdu hann á köflum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert