278 látnir, 388 slasaðir

Maður vottar virðingu sína við kistur látnu í íþróttahúsi í …
Maður vottar virðingu sína við kistur látnu í íþróttahúsi í Ascoli Piceno. Fyrstu útfarir þeirra sem létust í skjálftanum aðfaranótt miðvikudags fóru fram í dag. AFP

Fyrstu útfarir þeirra sem létust í jarðskjálftanum á Ítalíu aðfaranótt miðvikudags fóru fram í dag en flaggað verður í hálfa stöng á morgun af virðingu fyrir fórnarlömbum skjálftans. Að minnsta kosti 278 létust í hamförunum, þar af átta útlendingar.

Samkvæmt breskum fjölmiðlum létust þrír Bretar í skjálftanum, þeirra á meðal 14 ára drengur. Þá létust tveir Rúmenar, búsettir á Ítalíu, Spánverji, Kanadamaður og einn frá El Salvador.

Engir hafa fundist á lífi það sem af er degi samkvæmt almannavörnum landsins. Að minnsta kosti 388 hafa leitað aðhlynningar vegna meiðsla. Enginn hefur fundist á lífi í rústum þeirra þorpa sem urðu hvað verst úti síðan á miðvikudagskvöld.

Leit heldur áfram en lögregla hefur tilkynnt að á næstunni hefji björgunarmenn að notast við vélknúin tæki til að moka burt rústunum og þykir það benda til þess að vonir manna um að bjarga fleirum séu litlar. Áfram verður þó notast við hitaskanna til að freista þess að finna fólk í rústunum.

Ítalskir rétta hjálparhönd.
Ítalskir rétta hjálparhönd. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert